Fjörutíu ár á Verði

Deila:

„Ég byrjaði 15 ára með Gumma bróður á Þorkötlu II, á trolli fram á haust, en síðan kláraði ég gagnfræðaprófið og fór svo aftur á sjóinn, fyrst á Víkurbergið en í janúar 1978 byrjaði ég á Verði og hef verið þar um borð nánast samfleytt síðan, fyrst þeim gamla og síðan þeim nýja. Það verða því 40 ár í janúar. Mér fannst hann þá vera dálítið gamall, en hann var þá 11 ára. Nú er  Vörður á svipuðum aldri, nálægt því að verða 11 ára. Þetta eru bara tveir bátar, sá fyrri var byggður 1967 og sá seinni 2007 í Póllandi.

Þetta segir Grindvíkingurinn Þorgeir Guðmundsson skipstjóri á Verði EA, togbáti Gjögurs hf. Þorgeir hefur verið fengsæll en undanfarin ár hafa þeir verið að veiða yfir 3.000 tonn á ári. Þorskur er stór hluti aflans og hafa veiðarnar gengið afburða vel. Oft tekur ekki nema sólarhring að fylla bátinn sem ber um 60 tonn.

10 ára skvering í haust

„Ég tók skólann 1983 og 1984. Við vorum saman ég og Reynir Gests, sem er með Áskel EA og Doddi í Valhöll. Fyrri veturinn keyrðum við á milli en seinni veturinn vorum við Reynir á heimavist.  Annars hef ég verið á sjónum, fyrst sem háseti og síðan í brúnni á þeim gamla. Ég tók við sem skipstjóri á nýja verði 2007, skömmu eftir að hann kom nýr heim. Hjálmar Haraldsson var fyrst með hann og þá fór ég yfir á Oddgeir, sem áður var Gjafar, en svo skiptum við aftur og ég tók við Verði í október 2007,“ segir Þorgeir.

IMG_7159

Báturinn var í 10 ára skveringu fyrr í haust, en þá var farið yfir allt í honum. Vélin tekin upp og tankar þykktarmældir og ýmislegt fleira. Það var rúmlega mánaðar slippur.

Báturinn er stuttur, undir 29 metrum að lengd en mjög breiður, 1,2 metrum breiðari en Áskell, sem er í eigu sömu útgerðar, en hann hann var smíðaður eftir annarri teikningu í Kína og hét áður Helga RE.

Veiða fyrir vinnsluna á Grenivík

Þorgeir hefur verið á trolli mörg undanfarin ár. „Við hættum á netum á gamla Verði síðustu fjögur eða fimm árin og á þessum er bara verið á trolli, enda báturinn hannaður fyrir togveiðar.

Úthaldið er í nokkuð föstum skorðum. Við förum út í hvern túr með það verkefni að veiða fyrir vinnsluna á Grenivík. Svo reynum við að spinna veiðina við það og stöðuna í kvótanum hverju sinni. Vaninn er að 30 tonn fari norður á Grenivík í hverri viku af hvorum bát, en ef annar stopp tekur hinn 60 tonn.

Ef við löndum heima og erum með stóran þorsk eða ufsa fer hann í saltið í Grindavík, en annars allt á markað eða í gáma. Við erum aðeins byrjaðir í gámunum, en það höfum við ekki gert í 6 til 7 ár. Markaðirnir hér heima hafa verið svo slappir eftir sjómannaverkfallið í vetur að gámarnir gefa meira. Það er þá aðallega karfi sem fer í gámana en við erum með yfir 1.000 tonna karfakvóta.

Vikuskammturinn 60 tonn

Vörður EA mynd 9Við erum að taka 3.200 til 3.500 tonn á bátinn á ári og það er bara nokkuð gott. Skammturinn hjá okkur erum 60 tonn á viku og svo er verið að fara aukatúra. Það er sérstaklega á vertíðinni sem við erum a landa tvisvar. Þá er kannski tekinn einn karfatúr og svo einn fyrir vinnsluna. Í þorskinum erum við bara um sólarhring að taka skammtinn og þá eru tveir túrar bara þrír til fjórir dagar,“ segir Þorgeir.

Það hefur ekki verið vandamál að sækja þorskinn hjá þeim á Verði, en annað er með ýsuna.  „Fyrstu árin á honum var gríðarlega mikið af ýsu hér sunnan við Hraun. Svo minnkaði hún og þorskurinn tók völdin. Það er því ennþá mikil þorskveiði en þann er veiddur öðru vísi en áður, ekkert minna fyrir utan togaralínu en innan. Eina breytingin sem ég hef verulega orðið var við á þessum árum að það er orðið erfiðara að eiga við hann vestur í Kanti. Það vegna þess að nú eru fleiri en áður sem sækja í hann þangað. Þar eru flestir að sækja þorsk þangað í flugið. Við vorum miklu færri fyrstu árin þegar við vorum að sækja þangað, en svo fóru flest allir að sækja í þetta.“

Sóknin ekki of mikil

Þorgeir segir að ekki sé verið sé að sækja of mikið í þorskinn. Hann heldur að hann þoli þessa sókn vel sem nú er. „En þegar þegar mörg skip eru að sækja í hann á sama punktinum, sækja í ákveðna stærð, kemur einhvern tíman að því að það verður lítið að fá. Menn þurfa þá stundum meiri tíma. Við fáum beiðni frá Ægi vinnslustjóra á Grenivík um ákveðnar stærðir og þá sækjum við þær bara. Þá oft betra að fara utar til að minna sé af ormi í fiskinum. Meira er af ormi í fiskinum á grunnslóðinni. Á hinn bóginn er erfiðara að sækja þarna út, því það skiptir svo um veður þegar maður er kominn 15 til 20 mílur út. Það getur verið fínasta veður undir landi, en bölvaður strengur þarna úti, ef það er norðaustanátt eru alltaf 15 til 20 metra vindhraði og það er erfitt til lengdar.“

Á vertíðinni sækja þeir á Verði mest austur undir Surt. Frystu árin voru þeir meira hérna fyrir framan en þá voru þeir meira í ýsunni. Nú er staðan þar gjörbreytt og orðið erfiðara að sækja ýsuna. Frá því í febrúar eru þeir heima, á svæðinu frá Surti og norður fyrir Garðskaga og landa þá í Grindavík. Svo fikra þeir sig norðar og eftir sjómannadag eru þeir oft komnir norður í Nesdýpi og svo út í kant ef það viðrar. Þá er stundum landað á Grundarfirði. Það fer svo eftir veðri hvort þeir fara eitthvað norður eða austur fyrir landið. Og nokkrum sinni hafa þeir farið hringinn og þá landað á Grenivík, Siglufirði, Eskifirði, en mest á Ísafirði. Þegar erfitt er að sækja fá þeir meiri tíma á veiðum með því að landa sem næst miðunum.

„Ufsinn hefur verið erfiður um tíma og verið smár og lítill áhugi á því að sækja í hann. Það eru bara frystitogararnir og stóru vinnslurnar sem sækja í smærri ufsann. Við erum svolítið undir í áætlun í ýsuveiðunum og þar kom verkfallið inn í. Því verður meira sótt í ýsuna á þessu fiskveiði ári, töluvert af henni hefur verið flutt milli ára og dálítið af þorski líka,“ segir Þorgeir.

Mönnun ekki vandamál á Verði

Nokkur umræða hefur verið um að erfitt sé að manna skipin nú vegna lágs fiskverðs, sérstaklega á línubátum og frystitogurum. Það er ekki vandamál hjá þeim á Verði. „Þetta er eitthvað sem við höfum aldrei þekkt, enda hefur þessi minni stærð af togbátum verið að gefa góðar tekjur. Sami mannskapurinn hefur verið um borð í mörg ár. Þar eru 12 með fast pláss um borð og fjórir eru í afleysingum og eru afleysingarmennirnir mikið um borð. Því má segja að það séu 16 manns um 12 pláss. Þeir ganga vaktir, 8/16 og ef mikið fiskirí erum við bara sólarhring að fylla en aukavaktir eru ekki ræstar.“

Fiskverð hefur lækkað mikið á undanförnum 12 mánuðum og fyrir vikið minnkar þénustan um borð. „Þetta er alveg þriðjungs lækkun á launum, sem stafar af lækkun fiskverðs og það munar um minna. Við höfum aðeins náð að vega upp á móti því með því að veiða meira eins og eftir verkfallið. Þetta munar miklu en hlýtur að fara að lagast. Manni sýnist að krónan gæti farið að lækka.“

Bara vinna og sofa

Vinnuaðstaðan um borð í bátunum hefur gjörbreyst og allur aðbúnaður frá því sem var á árum áður. „Það er ekkert hægt að líkja þessu saman eins og það er í dag og það var þegar maður var að byrja á sjó. Það er reyndar galli við þessa stuttu báta að í þeim er ekkert umframpláss. Það er ekki einu sinni hægt að koma trimmhjóli þarna fyrir. Allt pláss er gjörnýt, þetta eru bara veiðitæki, sem ekki er ætlað að vera lengi á sjó í einu. Menn eiginlega bara vinna og sofa og eru á facebook ef tóm til þess gefst. Mér finnst menn svolítið mikið háðir Netinu og orðnir órólegir eftir eftir klukkutíma hlé. En svo þegar við erum komnir norður fyrir Straumnes dettur allt netsamband út. Þá er svolítið sérstakt að sjá menn vera að hlaupa fram á stefni til að reyna að ná merkinu,“ segir Þorgeir Guðmundsson.

Viðtalið birtist fyrst í Sóknafæri, blaði Athygli hf. sem dreift er með Morgunblaðinu.
Myndirnar af Þorgeiri og Verði í höfn tók Hjörtur Gíslason

 

 

Deila: