Ný Björg komin til Akureyrar

Deila:

 

Björg EA-7, nýr ferskfisktogari Samherja hf. lagðist að bryggju á Akureyri í fyrsta sinn í hádeginu í dag. Skipið er það fjórða og síðasta í seríu togara sem Cemre skipasmíðastöðin í Tyrklandi hefur afhent á þessu ári til íslenskra útgerða. Fyrstur var Kaldbakur EA-1 í eigu Útgerðarfélags Akureyringa, dótturfélags Samherja hf., síðan Björgúlfur EA-312 í eigu Samherja hf., Drangey SK-2 í eigu FISK Seafood og nú Björg EA í eigu Samherja hf. Skipin eru hönnun frá Skiptatækni ehf. Strax eftir heimkomu Bjargar EA verður hafist handa hjá Slippnum Akureyri við niðursetningu vinnslubúnaðar á milliþilfar skipsins og er áformað að togarinn haldi til veiða snemma á næsta ári.

Skipstjórinn Freyr Guðmundsson segir skipið frábært í alla staði.

Skipstjórinn Freyr Guðmundsson segir skipið frábært í alla staði.

225 tonna lestarrými

Skipið er 62,5 metra langt skip og 13,5 metra breitt. Það er skráð 2081 brúttótonn og hefur 14 hnúta siglingahraða að hámarki. Það er búið Yanmar aðalvél sem Marás ehf. hefur umboð fyrir hér á landi. Hún skilar 1620 kW afli við 750 snúninga og getur bæði keyrt á svartolíu og gasolíu. Skrúfa skipsins er 3,8 m í þvermál og er skipið búið kerfum sem reikna út bestu nýtingu orku hvort heldur það er á veiðum eða siglingu.

Allar vindur skipsins eru knúnar með rafmagni og koma frá norska framleiðandanum Seaonics. Togafl skipsins er 40 tonn. Í lest rúmar það 225 tonn af fiski (750 stk 460 lítra kör) en lestin er tæplega 1000 rúmmetrar að stærð. Í henni er ný gerð af krana sem gengur á brautum í lestarloftinu, nokkurs konar hlaupaköttur. Þessi búnaður er notaður til að raða fiskikerum í lestina en hann er hollenskur að uppruna og er ný tækni í lestum fiskiskipa.

Í brú skipsins er m.a. svokallaður skjáveggur sem þar sem skipstjóri getur verið með samtímis alla helstu upplýsingaglugga úr siglinga- og fiskileitarbúnaði skipsins. Þessi tækni er frá fyrirtækjunum Brimrún ehf. og Nordata ehf. Veiðarfæranemar eru frá Marport.

Fiskvinnslusvæði á milliþilfari er rúmir 400 fermetrar að stærð og þar verður aðgerðaraðstaða og búnaður til fullkælingar á afla áður en hann er settur í lest. Fiskinum verður raðað í kör á milliþilfarinu og þaðan fara þau með lyftum niður í lest.

Nöfnin sótt í fjölskylduna

Nýja skipið ber nafn Bjargar Finnbogadóttur, móður Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja hf., og fagnaði hún skipinu við komuna til Akureyrar í dag. Í fiskiskipaflota fyrirtækisins eru eða hafa verið skip sem heita í höfuð foreldra þeirra Samherjafrænda, Kristjáns Vilhelmssonar og Þorsteins Más Baldvinssonar. Fyrst kom togarinn Baldvin Þorsteinsson EA-10, nefndur í höfuðið á föður Þorsteins Más. Síðan fjölveiðiskipið Vilhelm Þorsteinsson EA-11, sem heitir eftir föður Kristjáns. Síðan kom Anna EA-305 sem er nefnd í höfuð á Önnu Kristjánsdóttur móður Kristjáns og nú Björg EA-7 sem ber, líkt og áður segir, nafn Bjargar Finnbogadóttur móður Þorsteins Más.
Texti og myndir Jóhann Ólafur Halldórsson.

 

Hér eru þau mæðgin Björg Finnbogadóttir og Þorsteinn Már Baldvinsson við skipshlið en nýja skipið ber nafn Bjargar.

Hér eru þau mæðgin Björg Finnbogadóttir og Þorsteinn Már Baldvinsson við skipshlið en nýja skipið ber nafn Bjargar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deila: