Sjómannasambandið skrifar undir samning við SFS

Deila:

Nýr kjarasamningur á milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) var undirritaður í dag í húsnæði Ríkissáttasemjara. Samningar á milli aðila hafa verið lausir frá árinu 2019. Árið 2023 var nýr kjarasamningur felldur í atkvæðagreiðslu sjómanna.

Þetta kemur fram á vef Sjómannasambands Íslands. Þar kemur fram að áherslan hafi verið á að taka tillit til þeirra athugasemda og gagrýni sem fram hafi komið á samninginn sem sjómenn felldu í fyrra.

„Við erum núna í þeirri stöðu að vera með kjarasamning í höndunum sem við höfum undirritað og er að fara í atkvæðagreiðslu hjá sjómönnum innan okkar félaga. Að mínu mati er þetta góður samningur og við höfum náð að semja um flest þau atriði sem gagnrýnd voru í samningnum sem var felldur í fyrra. Núna eru sjómenn í góðri stöðu til að samþykkja samning sem verður með binditíma í 5 ár og ég vonast eftir því að samningurinn verði samþykktur,“ er haft eftir Valmundi Valmundssyni formanni Sjómannasambandsins.

Deila: