Gullver mokfiskar

Deila:

Ísfisktogarinn Gullver NS hefur verið að gera það gott að undanförnu. Í nýliðnum októbermánuði var afli skipsins um 730 tonn í sjö löndunum, en skipið landar á Seyðisfirði. Uppistaða aflans var þorskur en eins var lögð töluverð áhersla á að veiða ýsu og karfa.

Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Þórhall Jónsson skipstjóra á föstudag en þá var skipið statt við Litladýpi austan við Breiðdalsgrunn. „Síðasti mánuður var mjög góður hjá okkur og tíðin var afskaplega hagstæð. Aflabrögð voru góð og aflinn fékkst að mestu á okkar hefðbundnu miðum. Þorskurinn var veiddur á Breiðdalsgrunni og Litladýpinu, ýsan að drjúgum hluta á Gerpisflaki og Tangaflaki og karfinn fékkst einkum í Berufjarðarál. Það hefur verið betri veiði á þessum miðum en undanfarin haust. Lykillinn að þessum góða árangri er meiri kvóti en við höfum haft til ráðstöfunar áður. Við getum veitt af krafti og stopp á milli túra eru styttri en áður. Venjulega tökum við þrjá túra og síðan er stoppað í um tvo sólarhringa. Þetta hefur gengið vel og menn eru mjög ánægðir með þetta fyrirkomulag,“ segir Þórhallur.

Adolf Guðmundsson rekstrarstjóri á Seyðisfirði segir að líklega séu liðin um 20 ár frá því að Gullver skilaði á land jafn miklum afla í einum mánuði. Hann segir að útgerðin gangi vel og þess sé ávallt gætt að fiskvinnslustöðin á Seyðisfirði hafi nægt hráefni til vinnslu. Þá fari hluti af þorskafla Gullvers til vinnslu á Dalvík og Akureyri. Nokkur hluti aflans er síðan fluttur út með Norrænu.

Ljósmynd Ómar Bogason

 

 

Deila: