Er „netþorskur“ framtíðin?

Deila:

Með vaxandi sölu matvæla á netinu vaknar spurningin um hversu vel íslenska þorskinum mun vegna sem söluvara á netinu?

Í greiningu Sjávarklasans á möguleikum íslenska þorsksins í netsölu er fjallað um áskorun fyrir íslenskan sjávarútveg til að ná athygli og trausti erlendra neytenda, þar sem miklar líkur eru á að samkeppnisstaða matvæla á næstu árum ráðist að hluta af því hvernig þeim vegnar að kynna sig sem áhugaverða vöru á netinu.

Spurningin er hvort verkefnið framundan sé að klasa betur saman vefsnillinga landsins og sjávarútveginn?

„Ef skoðað er hvernig þorskur er seldur á netinu þá er nokkuð ljóst að hann á langt í land með að hafa þá stöðu sem hann á skilið. Þorskur er bæði seldur sem dýrafóður og sem frystur og ferskur á netinu. Í nær engum tilfellum, sem Sjávarklasinn hefur skoðað, er upprunalands þorsksins getið ef fiskurinn er innfluttur. Mögulegir viðskiptavinir geta því ekki séð hvaðan fiskurinn kemur. Þarna er engum einum um að kenna en aðal ástæðan er ugglaust sú að mögulegir viðskiptavinir vita lítið um hvaða lönd eru að veiða og vinna þorsk af hæstu gæðum. Þarna hafa Norðmenn þó náð nokkru forskoti í sumum Evrópulöndum með því að kynna norskan uppruna fisks fyrir þarlendum neytendum,“ segir meðal annars í greiningunni.

Þar segir ennfremur: „Íslenskur sjávarútvegur er að mörgu leyti betur settur en sjávarútvegur í flestum nágrannalöndum okkar til að nýta sér netið sem sölutæki. Við getum boðið nokkuð öruggt framboð allt árið um kring, við erum með alla framleiðslukeðjuna klára -frá skipi og vinnslu til flutninga- og sölukerfis. Verkefnið framundan er að efla ímynd og markaðsvinnu í kringum þorskinn og kannski klasa betur saman vefsnillinga landsins og sjávarútveginn.“
Greininguna má sjá hér: http://www.sjavarklasinn.is/wp-content/uploads/2017/10/%C3%8Dslenski-%C3%BEorskurinn-Online-final.pdf

 

Deila: