Aukið aflaverðmæti á Norðurlandi

Deila:

Enn eru miklar sveiflur í verðmæti landaðs afla eftir landshlutum. Meðalhækkun aflaverðmætis yfir landið allt var 2,3% í mars, þrátt fyrir mun minni afla í mánuðinum, en í sama mánuði í fyrra. Skýringin á því er annars vegar loðnubrestur sem veldur samdrætti í magni en hins vegar hækkun á fiskverði, sem eykur verðmætið.

Þegar litið er á einstök landsvæði, kemur í ljós að aflaverðmæti á Norðurlandi eystra hækkar margfalt meira en landsmeðaltalið, en á Suðurlandi dregst verðmæti verulega saman. Verðmæti landaðs afla á Norðurlandi eystra varð nú í mars, samkvæmt aflatölum Hagstofunnar, 1,8 milljarðar króna, sem er hvorki meira né minna en vöxtur um 34,4%.

Næstmestur vöxtur varð á Norðurlandi vestra. Þar varð verðmætið nú 1,2 milljarðar króna sem er aukning um 21,9%. Vestfirðir koma næst, þegar miðað er við hækkun aflaverðmætis. Það hækkaði um 10,3% og varð alls 704 milljónir króna. Á Austurlandi hækkaði aflaverðmæti um 3,5% og varð nú 2,2 milljarðar. Á Suðurnesjum jókst verðmætið um 2,7% og varð 2,5 milljarðar.

Á hinum endanum féll aflaverðmætið um 29,2% á Suðurlandi og varð 1,4 milljarðar. Samdráttur á höfuðborgarsvæðinu varð 4,9% og varð samtals 2,7 milljarðar króna, sem er mesta aflaverðmæti í einstökum landshluta. Á Vesturlandi varð samdrátturinn 0,9% og varð verðmætið alls 1,2 milljarðar.

Deila: