Keppendur Boxins reiknuðu sig til Mars í þraut Marel

Deila:

Boxið, framkvæmdakeppni framhaldsskólanna, var haldið í sjöunda sinn síðastliðinn laugardag en Háskólinn í Reykjavík, Samtök iðnaðarins, Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samband íslenskra framhalds-skólanema stóðu að venju fyrir keppninni.

Marel hannaði þraut fyrir nemendurna sem gekk út á að keppendur áttu að klára að setja saman vog með því að tengja vogarpallinn við tölvuna og ljúka svo við frágang. Þá þurftu þeir einnig að vigta og verðmerkja kjúkling, kjöt og fisk og nýta stærðfræðikunnáttu sína til þess að leysa reikningsdæmi sem fól í sér að reikna þyngd hlutanna á Mars.

„Liðin stóðu sig öll með mikilli prýði en keppendur þurftu að beita beita talsverðri útsjónarsemi svo að ekki færi illa og verkefnið yrði klárað á þeim þrjátíu mínútum sem gefnar voru hjá hverju fyrirtæki. Menntaskólinn við Hamrahlíð sigraði keppnina að þessu sinni en það var Menntaskólinn í Reykjavík sem fór hraðast í gegnum þraut Marel, á rúmum 25 mínútum, og veitti Marel því liði MR aukaverðlaun fyrir gott skipulag, útsjónarsemi og liðsheild,“ segir á heimasíðu Marel.

Boxið er vettvangur fyrir framhaldsskólanema til að spreyta sig á ólíkum verkefnum, reyna á samvinnu og kynnast tækni og iðnaði á fjölbreyttan og skemmtilegan hátt. Keppnin er frábær vettvangur fyrir ungt fólk sem er óhrætt við að hugsa út fyrir boxið og reyna á hugvit sitt og verklag í góðum hópi.

Úrslitakeppnin samanstendur af þrautabraut með átta stöðvum en liðin fara á milli og leysa eina þraut, oft margþætta, á hverjum stað. Átta fyrirtæki úr Samtökum iðnaðarins útbúa þrautirnar ásamt kennurum frá Háskóla í Reykjavík. Fyrirtækin sem lögðu þrautirnar fyrir í ár voru Endurvinnslan, KeyNatura, Valka, Marel, Mannvit, Oddi, NoxMedical og Kóðinn/Skema.

RÚV tók keppnina upp eins og endranær og tók jafnframt viðtöl við keppendur en úr efninu verða gerðir tíu stuttir þættir sem verða svo sýndir eftir áramót.

 

Deila: