Skipið fer mjög vel með mannskapinn

Deila:

„Viðbrigðin voru gríðarleg. Manni var kippt úr gamla tímanum í einu vetfangi og komið fyrir í tölvuvæddri framtíð. Engey RE er ótrúlegt skip sem maður er enn að læra á. En það fer mjög vel með mannskapinn og nýja lagið á bógnum er rækilega búið að sanna sig. Þótt Ásbjörn RE hafi verið gott sjóskip þá valt það töluvert í brælum en þessi veltingur heyrir nú sögunni til.“

Þetta segir Friðleifur Einarsson, skipstjóri á nýja ísfisktogaranum Engey, en er heimasíða HB Granda náði tali af honum var hann með togarann að veiðum á Straumnesgrunni á Vestfjarðamiðum.

Engey var afhent í Tyrklandi í byrjun janúar sl., fyrstur þriggja ísfisktogara sem Céliktrans skipasmíðastöðin smíðaði fyrir HB Granda. Eftir átti að setja niður búnað á millidekki og koma fyrir sjálfvirku lestarkerfi í skipinu og var það verk unnið af Skaganum 3X á Akranesi. Engey fór til veiða í sumar og segja má að áhöfnin hafi smám saman verið að læra á hinn flókna tölvubúnað sem stýrir veiðum og meðferð aflans. Að sögn Friðleifs hefur gengið vel að ná tökum á skipinu og tilheyrandi búnaði en hann segist vera fyrstur manna til að viðurkenna að það hafi síður en svo verið auðvelt.

Svo vikið sé að yfirstandandi veiðiferð þá segir Friðleifur að byrjað hafi verið á karfaveiðum á Fjöllunum.

,,Veiðarnar gengu sæmilega en það verður að hafa í huga að nú er kominn sá árstími að svartasta skammdegið hellist yfir og það þykir gott að fá einhvern karfaafla við slíkar aðstæður. Við héldum svo norður eftir og höfum mest verið í þorski hér á Vestfjarðamiðum. Við reyndum ekkert við karfa en það er ufsi hér á ferðinni en við höfum lítið sinnt þeim veiðum. Ufsinn er þannig að maður verður að hanga á slóðinni til að ná árangri en uppleggið hjá okkur í þessari veiðiferð var að veiða karfa og þorsk,“ segir Friðleifur Einarsson en hann segir að aflanum verið landað í Reykjavík nk. miðvikudag.

Deila: