Frjálst að velja sér stéttarfélag
„Að gefnu tilefni vilja Sjómannafélag Íslands og Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur beina því til íslenskra fiskimanna að ganga úr skugga um að vinnuveitendur standi skil á félagsgjöldum til þess félags sem viðkomandi kýs.“
Svo segir í sameiginlegri yfirlýsing Sjómannafélags Íslands og Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur. Þar segir ennfremur:
„Tilefni þessarar ábendingar er að upp hafa skotið kollinum tilvik þar sem sjómenn töldu sig greiðandi félagsmenn í einu félagi, en komið hafi síðan á daginn að samkvæmt launaseðlum hefði verið greitt í annað.
Sjómannafélag Íslands og Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur vekja athygli á því að öllum fiskimönnum er frjálst að velja sitt stéttarfélag, enda félagafrelsi bundið í lög.“