Með góðan afla úr Barentshafinu

Deila:

,Veiðiferðin í norsku lögsöguna í Barentshafi var góð að öðru leyti en því að það skarst maður á hönd í flökunarvél og slasaðist illa. Við kölluðum til björgunarþyrlu og hún kom út 170 sjómílna leið og flaug með manninn á sjúkrahúsið í Tromsö. Síðast þegar ég hafði samband var maðurinn á góðum batavegi en það er ljóst að hann verður einhverja mánuði að jafna sig.”
Þetta segir Ævar Jóhannsson, skipstjóri á frystitogaranum Örfirisey RE í samtali við heimasíðu HB Granda, en skipið kom til Reykjavíkur í gærkvöldi eftir 40 daga veiðiferð. Siglingin heim tekur um fjóra og hálfan sólarhring. Ævar segir aflann upp úr sjó í veiðiferðinni vera góðan en 90% aflans er þorskur.
,,Við náðum ekki alveg að veiða allan kvótann en til þess hefðum við þurft þrjá sólarhringa til viðbótar,” segir Ævar en hann kveður þorskinn vera mjög vænan.
,,Meðalvigtin er 3,8 kíló, miðað við slægðan fisk, og það er ekkert los í flökunum. Þorskurinn þarna er úttroðinn af loðnu og við vorum að fá trollið ánetjað af loðnu mjög víða þannig að þarna virðist töluvert magn vera á ferðinni. Lóðningar bentu til hins sama.”
Að sögn Ævars hófu skipverjar á Örfirisey veiðar við Bjarnarey en þaðan var farið austur á Tor Iversenbankann.
,,Við vorum hins vegar lengst af á svokölluðum Hjelmseyjarbanka og þar lukum við veiðum. Við fórum aðeins á Fugleyjarbankann en þar var lítið að hafa að þessu sinni. Veiðin þar ætti þó að glæðast þegar líður á vertíðina,” segir Ævar Jóhannsson.

Deila: