Um 179 milljónir kostaði að flytja Fiskistofu norður

Deila:

Kostnaður vegna flutnings Fiskistofu til Akureyrar sem hófst 2015 var samtals 178,7 milljónir króna. Þar er meðal annars kostnaður vegna starfsloka tæpar 45 milljónir króna. Flutningurinn hafði ýmis neikvæð áhrif á starfsfólk og starfsgetu Fiskistofu samkvæmt skýrslu fiskistofustjóra Eyþórs Björnssonar. „Starfsmönnum Fiskistofu var mjög brugðið er ráðherra tilkynnti á starfsmannafundi um fyrirhugaðan flutning Fiskistofu, fyrst og fremst af þeim sökum að áformin gerðu ráð fyrir því að flutningi yrði lokið fyrir árslok 2015 og því stóð stór hluti starfsfólks frammi fyrir þeim afarkostum að flytja til Akureyrar eða láta af störfum ella,“ segir í skýrslunni.

„Gagnrýnt hefur verið hvernig staðið var að ákvörðun og kynningu á fyrirhuguðum flutningi Fiskistofu til Akureyrar. Það hefði hugsanlega sparað mikla vinnu og haft minni kostnað í för með sér hefði flutningurinn verið undirbúinn betur, s.s. með samráði við fiskistofustjóra, mannauðsstjóra og með ráðgjöf fagaðila. Þá voru markmið stjórnvalda með flutningunum ekki fyrirliggjandi með skýrum hætti. Langur óvissutími frá því að tilkynnt var um flutning höfuðstöðvanna þangað til formleg ákvörðun lá fyrir setti starfsemi stofnunarinnar í uppnám þar sem mikill mannauður og þekking tapaðist. Beita hefði þurft markvissri breytingastjórnun og reyndist langur óvissutími starfsfólki og stofnuninni erfiður. Enn metur starfsfólk það svo að ímynd stofnunarinnar sé frekar neikvæð og gæti hluti af skýringunni verið upplifun fólks á umræðunni í fjölmiðlum við flutningana. Læra þarf af þessu ferli og undirbúa þarf sambærileg verkefni mun betur en gert var í tilviki Fiskistofu, út frá mannauði, kostnaði, verkefnum og verkferlum. Sú umræða sem spannst í kringum flutninga Fiskistofu er til þess fallin að draga upp mjög neikvæða mynd af flutningi verkefna út á land og um leið draga úr tiltrú á slík verkefni,“ segir meðal annarsennfremur í skýrslunni.

Skýrslan var tilbúin  fyrir mitt ár 2018 en þar sem hún var hluti þeirra gagna sem Ríkisendurskoðun voru fengin frá stofnuninni vegna vinnslu  á skýrslu um eftirlitsstarfsemi Fiskistofu var beðið með  birtingu skýrslunnar fram yfir birtingu skýrslu Rískisendurskoðunar og umfjöllunar  um hana á opinberum vettvangi.

Í skýrslunni er leitast við að  lýsa sem best því ferli þegar ráðherra ákvað að flytja höfuðstöðvarnar, allt frá því ráðherra tilkynnti um áformin og fram á árið 2018 þegar segja má að flestir þættir málsins hafi legið skýrt fyrir.  Fjallað er um mannauð Fiskistofu, stjórnun og starfsemi og þær áskoranir sem verkefninu fylgdu. Einnig er fjallað um húsnæðismál stofnunarinnar og kostnað sem flutningunum fylgdi.

Skýrsla um flutning höfuðstöðva Fiskistofu til Akureyrar 

 

Deila: