Gengi krónunnar komið yfir þolmörk

Deila:

„Raungengi íslensku krónunnar er komið yfir þolmörk fyrir allar útflutningsgreinar og ekkert lát virðist vera á styrkingu krónunnar. Seðlabankinn hefur reynt að stemma stigum við styrkingunni með uppkaupum á erlendum gjaldeyri, en það hefur ekki dugað til enda hefur stýrivöxtum verið haldið háum á sama tíma. Og í gær var tilkynnti Seðlabankinn að hann væri hættur reglulegum uppkaupum og ekki er það til að bæta stöðuna. Það er erfitt að meta hversu lengi þessi styrkingarfasi heldur áfram, en eitt er víst að mörg sjávarútvegsfyrirtæki munu fljótlega lenda í miklum vandræðum sökum þessa – sérstaklega í ljósi þess að margir kostnaðarliðir eins og laun hafa hækkað mikið undanfarin ár á meðan tekjusamdráttur fylgir styrkingunni,“ sagði Jens Garðar Helgason, formaður stjórnar Samtaka í sjávarútvegi, í ræðu sinni á ársfundi SFS á föstudag. Meginefni ræðunnar fer hér á eftir:

Jens Garðar á ráðstefnuSamtök atvinnulífsins hafa kallað eftir því að Seðlabanki Íslands lækki vexti verulega strax til að bregðast við gengisþróun íslensku krónunnar. Yrði það til þess að minnka fjárfestingar erlendra fjárfestingasjóða sem leita í hávaxtahagkerfi en ekki síst til þess að hvetja lífeyrissjóði og aðra fjárfesta til að koma gjaldeyri úr landinu með fjárfestingum erlendis. Eins og staðan er núna er hvatinn lítill fyrir viðkomandi aðila að hreyfa fé úr hávaxtaumhverfi Seðlabanka Íslands.

Forsætisráðherra skipaði nú fyrir skömmu nefnd um endurskoðun peningastefnunnar og er henni ætlað að skila niðurstöðum í lok þessa árs. Í nefndinni situr m.a. aðalhagfræðingur SA, Ásdís Kristjánsdóttir. Bind ég miklar vonir við vinnu þessarar nefndar.  En það er amk alveg á hreinu að í áframhaldandi styrkingu krónunnar og viðvarandi ástandi verður rekstrarumhverfi okkar sífellt erfiðara og tel ég að margar útgerðir og vinnslur muni leita leiða til hagræðingar með sameiningum eða sölu eða hætta rekstri.

Það hlýtur amk öllum landsmönnum að vera ljóst að núverandi peningastefna Seðlabanka Íslands er ekki sjálfbær fyrir íslenskt atvinnulíf og henni verður að breyta áður en það er of seint.

Hvers vegna er ósætti?

Nú á dögunum skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd um endurskoðun veiðigjalda í umræðunni kölluð sáttanefnd.

Ég vil aðeins leggja útaf orðinu sátt.  Í mínum huga hlýtur að vera sátt um atvinnugrein sem nýtir auðlindir þjóðarinnar á sjálfbæran og ábyrgan hátt.  Nýtir auðlindina með þeim hætti að þeir sem hana nýta í dag skila henni af sér í jafngóðu ef ekki betra ásigkomulagi til næstu kynslóðar.

Hvers vegna er ósætti um atvinnugrein sem fjárfestir fyrir milljarða tugi um allt land og tryggir að öflug fyrirtæki verði burðarásar síns atvinnusvæðis og tryggja atvinnuöryggi og hálaunastörf.

Hvers vegna er ósætti um atvinnugrein sem ekki einungis nýtir auðlindina á arðbæran hátt þjóðinni til heilla, heldur greiðir aukalega til samfélagsins í formi auðlindagjalda.

Hvers vegna er ósætti um atvinnugrein sem hefur búið til þann jarðveg og framtíðarsýn að uppúr honum spretta sprota – og nýsköpunarfyrirtæki sem skapa ótrúlega verðmæti úr hliðarafurðum sem fyrir ekki löngu síðan voru ekki nýtt.

Hvers vegna er ósætti um atvinnugrein sem með sífelldri kröfu um betri gæði, betri nýtingu, framleiðni og afköst hefur getið af sér hátæknifyrirtæki sem skapa þúsundir starfa og eru leiðandi á sínu sviði í heiminum.

Hvers vegna er ósætti um atvinnugrein sem er skólabókardæmi og fyrirmynd fyrir aðrar fiskveiðiþjóðir hvernig nýta á auðlindir sjávar með ábyrgð, sjálfbærni, framleiðni, hagræði og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.

Um hvað hefur ósættið verið? Að greinin hafi aðlagast breyttum aðstæðum með hagræðingu, sameiningum, tæknivæðingu, umhverfisvitund, nýsköpun og framsækni sem skilað hefur arðbærum rekstri vegna íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins og þeirra aðila sem starfa innan þess. Er ósættið virkilega vegna þess að greinin hefur eitt sjávarútvegskerfa innan OECD skilað til samfélagsins í formi skatta og gjalda en þiggur ekki niðurgreiðslur frá samborgurum sínum.

Treysta byggðir allt í kringum landið

Mikilvægasta verkefni íslenskra stjórnvalda á hverjum tíma er að hlúa að þeim jarðvegi sem greinin starfar í og tryggja að gjaldheimtan endurspegli gengi greinarinnar í heild á hverjum tíma en ekki að gjaldheimtan ráðist af huglægum tilfinningarökum um hvað einum finnst að annar ætti að geta borgað.  Gjaldheimta má ekki ráðast af slagorðum og fullyrðingum.  Þeir sem með völdin fara, á hverjum tíma, verða að átta sig á því að of mikið er í húfi.  Störf þúsunda manna og kvenna um allt land, afkoma sveitarfélaga og milljarða fjárfestingar í framleiðslutækjum og skipum er undir.  Ábyrgðin er mikil.

Í tengslum við þetta vil ég aðeins fara yfir hvernig umræðan hefur farið út og suður s.l vikur varðandi fiskveiðistjórnunarkerfið.  Í ljósi frétta af aðgerðum HB Granda á Akranesi hafa ýmsir stokkið til og talað um aukið gjald á greinina, byggðafestu kvóta, hugmyndir um uppboðsleiðir og annað þar eftir götunum – og hefur umræðan oft á tíðum ekki verið í neinu samhengi við raunveruleikann.

En hver er raunverulega staðan, lítum á staðreyndir málsins?  Akranes er líklega sá staður, sem mest hefur notið þess, m.v höfðatölu, hvernig íslenskur sjávarútvegur hefur tekið framförum í tækni, fjárfestingu og arðbærari nýtingu á auðlindum sjávar.  Á Akranesi hefur byggst upp þekkingarfyrirtækið Skaginn, með 170 starfsmenn, sem einmitt byggir á því að íslenskur sjávarútvegur er að fjárfesta til framtíðar og í framtíðinni.

Sumir hafa jafnvel gengið svo langt að úthrópa HB Granda fyrir að standa ekki við samfélagslegar skuldbindingar og stuðla ekki að byggðafestu.  Hvernig í ósköpunum er hægt að komast að þessari niðurstöðu þegar að fyrirtækið er að fækka úr 270 starfsmönnum á Akranesi í 185 og fyrirheit eru um að reyna að finna sem flestum vinnu annarsstaðar hjá fyrirtækinu – annað hvort á Akranesi eða í Reykjavík. Akranes er 6.800 manna samfélag í hálftíma akstri frá Reykjavík.  Á sama tíma hefur HB Grandi fjárfest fyrir 10 milljarða í atvinnutækjum og kvóta til að styrkja 600 manna byggðarlag austur á fjörðum.  10 milljarðar sem hafa tryggt starfsöryggi og byggðafestu Vopnafjarðar til framtíðar.  Samfélag sem er tíu sinnum minna en Akranes í 700 km fjarlægð frá Reykjavík.  Það að halda því fram að stefna HB Granda sé ekki samfélagslega ábyrg er í einu orði galin.

Við höfum ennþá fleiri dæmi um hvernig íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru að treysta byggðir og atvinnusvæði allt í kringum landið og fjárfesta til framtíðar.  Má þar nefna uppbyggingu Jakobs Valgeirs í Bolungarvík, Hraðfrystihúsið Gunnvör stefnir á að byggja nýja bolfiskvinnslu á Ísafirði, fjárfestingar í nýjum vinnslutækjum hjá Odda á Patreksfirði, uppbygging Ísfélagsins á Þórshöfn, ný bolfiskvinnsla Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, aukin vinnsla og fjárfesting Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði, nýtt hátækni uppsjávarfrystihús Eskju á Eskifirði, Samherji var að tilkynna nú á dögunum um milljarða  uppbyggingu á nýrri og glæsilegri bolfiskvinnslu á Dalvík og á morgun bætist í flotann Sólberg ÓF 1 sem er eitt glæsilegasta og tæknilegasta frystiskip í Norður Atlantshafi.  6 milljarða króna fjárfesting sem skilar 70 hátekjustörfum í samfélagið í Fjallabyggð.

Ofangreind dæmi lýsa svo ekki verður um villst að ef einhver atvinnugrein á Íslandi er að byggja upp, horfa til framtíðar, tryggja byggðafestu og góð laun fyrir starfsmenn sína þá er það íslenskur sjávarútvegur.

 

 

 

 

 

Deila: