Tekjulækkun un milljón vegna loðnubrests

Deila:

Loðnubrestur á síðustu vertíð hefur valdið sveitarfélögum, fyrirtækjum og starfsfólki miklu tekjutapi. Dæmi eru um að árstekjur þeirra sem starfa í fiskimjölsverksmiðjum hafi lækkað um meira en eina milljón. Vísbendingar eru um næsta vertíð gæti einnig brugðist og framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar vill að stofninn verði rannsakaður frekar. Þetta kemur fram í umfjöllun á ruv.is

Loðna hefur verið veidd við Ísland samfleytt frá árinu 1963 þangað til nú. Reyndar var engin loðnuveiði ráðlögð árið 2009 en þá gaf ráðherra samt út lítinn kvóta. Loðnan er ekki bara mikilvæg til veiða heldur líka mikilvægur hlekkur í vistkerfi sjávar enda fæða annarra tegunda. Hún er veidd þegar hún býr sig undir að hrygna, þéttir sig í torfur og gengur réttsælis í kringum landið. Miklar sveiflur eru í stofninum en heildarafli hefur farið minnkandi.

Loðnan dreifir sér til vesturs

Á hverju ári leitar Hafrannsóknastofnunin að loðnu og þrátt fyrir mikla leit fyrir síðasta fiskveiðiár fannst ekki nægilega mikið. Samkvæmt aflareglu á að skilja 150 þúsund tonn af kynþroska loðnu eftir til hrygningar. Mælingar gáfu til kynna að það myndi ekki nást og því voru engar veiðar leyfðar. Fyrstu mælingar fyrir yfirstandandi fiskveiðiár gefa heldur ekki tilefni fyrir svokallaðan upphafskvóta þó talsvert hafi fundist af ungloðnu. Loðnan er farin að dreifast meira til vesturs og ekki er vitað af hverju minna af henni kemur til hrygningar.

Útflutningsverðmætið um 18 milljarðar 2018

Eftir áramót verður aftur leitað að loðnu og þá kemur endanlega í ljós hvort það verður loðnubrestur annað árið í röð. Loðna hefur verið næst mikilvægasta útflutningstegundin á eftir þorski. Þegar veiðin bregst verða sjávarútvegsfyrirtæki fyrir tekjutapi. Útflutningsverðmæti síðustu loðnuvertíðar var næstum 18 milljarðar króna.

Minna að gera hjá netagerðum

Loðnubresturinn hefur líka áhrif á fyrirtæki sem þjóna sjávarútveginum. Í Hampiðjunni, áður Fjarðaneti, í Neskaupstað hefur undirbúningur fyrir loðnuvertíð verið undirstaðan í vinnunni seinni hluta árs. Nú hefur ekkert þurft að gera við næturnar og sama staða er í Egersund á Eskifirði. Þar hefur loðnuvertíðinni fylgt vinna fyrir 10 manns í 3-5 mánuði. Egersund metur tekjutap sitt um 130 milljónir króna.

Helmingi færri bretti framleidd

Í Tandrabergi er löndunarþjónusta og í Neskaupstað smíðar fyrirtækið vörubretti undir frosinn fisk. Tekjutapið var 40-50 milljónir og við hittum stjórnendur á skrifstofunni. Þau hafa þurft að segja fólki upp. Sigrún Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Tandrabretta, skoðar sölutölur. „Hér eru sem sagt frystibretti sem voru seld í fyrra 77.696 á móti rétt rúmlega 35 þúsund í ár og allar vertíðir búnað þannig að salan dróst saman um 50% á okkar stærstu vöru.  Megnið af tekjunum okkar eru að koma inn í kringum loðnuvertíðina og svo makrílvertíðina og síldarvertíðina. Þannig að þegar að ein af þessum vertíðum er að bregðast, hvað þá tvö ár í röð þá verður þetta pínu erfitt,“ segir Sigrún.

Einar Birgir Kristjánsson, framkvæmdastjóri Tandrabergs, horfir yfir rekstur alls fyrirtækisins. „Ég er bara að bera saman rekstur fyrstu fimm mánuði þessa árs og fyrstu fimm mánuði ársins á undan. Samdrátturinn var um 35%. En ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn, það hefur aldrei skeð að loðnubrestur hafi verið tvö ár í röð. Það má svona segja að loðnubrestur hafi kannski verið á tíu ára fresti. Það verður alvarlegt ef það verður en við skulum vona,“ segir Einar. Reyndar hefur aðeins verið gefinn út upphafskvóti í loðnu þrisvar sinnum á síðustu tíu árum

Missa yfirvinnutíð í febrúar og mars

Loðnan gengur með fram suðurströndinni og á leiðinni aukast hrognin í kvenfiskinum og um leið verðmætið. Loðnan er fryst hrognafull en hrognin eru líka kreist úr og unnin sér. Þá er loðna brædd í mjöl og lýsi. Hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði hafa febrúar og mars farið að stórum hluta í veiðar og vinnslu á loðnu. Nú hefur dauði tíminn verið nýttur í viðhald og ýmis verk sem setið hafa á hakanum. En á meðan er engin yfirvinna. „Þetta er einhver tekjulækkun 10-20%. Ég myndi segja kannski rúm milljón hjá sumum, meira og minna hjá einhverjum. Þetta hefur líka haft áhrif á lausafólk sem hefur komið hér inn á vertíðirnar og stólað á þetta,“ segir Óðinn Ómarsson, bræðslumaður hjá Loðnuvinnslunni.

Sveitarfélögin verða af útsvari og hafnargjöldum

Minnkandi tekjur þýða minna útsvar til sveitarfélaganna. Skýrsla sem gerð var fyrir Samtök sjávarútvegssveitarfélaga sýnir að fimm sveitarfélög hafa orðið fyrir tekjutapi vegna loðnubrestsins. Mest var tapið í Fjarðabyggð; 280 milljónir. Í Langanesbyggð var það 28,8 milljónir, í Vestmannaeyjum 140 milljónir og á Vopnafirði 23,5 milljónir. Þá er tekjutapið áætlað ekki undir 30 milljónum á Hornafirði.

Aðspurður um hvort tekjutapið hafi haft áhrif á framkvæmdir eða þjónustu í Fjarðabyggð segir Karl Óttar Pétursson bæjarstjóri: „Það er þannig að tekjuáætlun sveitarfélagsins er mjög varfærin. Svo hafa líka þessu sterku félög sem hér eru reynt að bregðast við með einhverjum hætti. Þannig að við höfum ekki þurft að blása af neinar stórar framkvæmdir, nei.“ En ef þetta endurtekur sig?  „Þá þurfum við að fara að draga saman í rekstri sveitarfélagsins, við getum ekki endalaust gert þetta ekki nema það komi eitthvað annað til,“ segir Karl Óttar.

Góð makrílvertíð vegur upp á móti 

Hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað minnkuðu verkefni og einnig launagreiðslur. Fyrstu þrjá mánuði ársins lækkuðu launagreiðslur um 35% miðað við sama tíma í fyrra. Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri SVN segir að hjá fyrirtækinu sjálfu hafi orðið um 30% tekjusamdráttur vegna loðnu. „En auðvitað erum við ekki að barma okkur mikið við erum að koma út úr mjög góðri makrílvertíð. Það var aukning á makrílkvótum á milli ára. Við vorum í mjög góðum mörkuðum með mjöl og lýsi. Veiðar og vinnsla á síld gengu vel þannig að það er margt jákvætt líka þó að það hafi ekki byrjað vel þá er árið búið að spilast ágætlega.“

Efla þurfi loðnuleit og rannsóknir

Hann segir þetta áminningu um að rannsaka þurfi loðnustofn mun betur. „Það þarf einfaldlega meiri fjármuni. Það kostar stundum pening að búa til pening.“ Aðspurður um hvort hann haldi að næg loðnan gæti verið til staðar það hafi bara þurft að rannsaka meira til að finna hana svarar Gunnþór: „Hafið er stórt og þó svo að við höfum ekki náð utan um loðnustofninn á síðustu vertíð þá er enginn sem segir að hún hafi ekki verið þarna. Það er að breytast eitthvað í göngumynstri loðnunnar sem þarf að rannsaka og komast að. Loðnan er einn undurstöðustofn í lífríki hafsins hér í kringum okkur. Þess þá heldur að leggja aukna áherslu á að rannsaka þennan stofn,“ segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað.

 

Deila: