Mjög góð karfaveiði í Víkurálnum

Deila:

Ísfisktogarinn Sturlaugur H. Böðvarsson AK kom til hafnar í Reykjavík sl. mánudagskvöld eftir góða veiðiferð á Vestfjarðamið. Aflinn er á að giska 125 tonn af karfa, þorski og ufsa eftir tæpa þrjá og hálfan sólarhring að veiðum.

,,Við fórum út laust eftir miðnætti sl. fimmtudag og byrjuðum veiðiferðina í karfa í Víkurálnum. Veiðin var prýðileg og við fengum alls tæplega 50 tonn af stórum og mjög góðum gullkarfa á vel innan við sólarhring,“ sagði Eiríkur Jónsson skipstjóri er rætt var við hann af heimasíðu HB Granda.

Frá Víkurálnum lá leiðin norður með kantinum og voru síðustu holin tekin í Þverálnum.

,,Svo virðist sem að þorskurinn sé ekki almennilega búinn að skila sér í kantinn út af Halanum en veiðin var engu að síður alveg þokkaleg. Þorskurinn var allur stór eða fjögur til fimm kíló. Ufsinn var erfiðastur viðfangs. Veiðin var aðallega þorskur en sá ufsi sem við hittum á var allt stórufsi. Það fóru 60 til 70 ufsar í karið og þetta var því allt fjögurra til fimm kílóa fiskur.“

Að sögn Eiríks var veiðiferðin tæpir fimm sólarhringar. Þar af eru siglingar tæpur hálfur annar sólarhringur og eiginlegur tími að veiðum því tæpur þrír og hálfur sólarhringur.

Svo sem kunnugt er þá flyst áhöfnin á Sturlaugi yfir á hið nýja skip Akurey AK þegar það verður tilbúið til veiða en nú er unnið að niðursetningu á búnaði á millidekki og sjálfvirku lestarkerfi hjá Skaganum 3X á Akranesi. Verklok eru áætluð í lok næsta mánaðar.

 

Deila: