Leynivopnið í hendur Breta
Líklega hefur fáa grunað á sínum tíma að togvíraklippurnar sem höfðu svo mikið að segja í þorskastríðunum á áttunda áratug síðustu aldar yrðu á meðal safngripa í Hull, einni helstu útgerðarborg Englands. Sú er samt raunin því síðdegis á föstudag afhenti Gylfi Geirsson, fyrrverandi loftskeytamaður og sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar og formaður öldungaráðs fyrrverandi starfsmanna LHG, stjórnendum Sjóminjasafnsins í Hull togvíraklippur. Frá þessu er sagt á heimasíðu Gæslunnar.
Eins og alþjóð veit voru klippurnar notaðar til að skera í sundur togvíra bresku togarana. Þær voru fyrst notaðar árið 1972 þegar fiskveiðilögsagan var færð út í fimmtíu sjómílur og svo aftur í 200 sjómílnadeilunni þremur árum síðar.
Þótt hart hafi verið tekist á í þorskastríðunum var allt með friði og spekt þegar klippurnar voru afhentar í Hull fyrir helgi. Um það bil áttatíu manns voru viðstaddir afhendinguna, þar á meðal meðlimir öldungaráðsins, félagar í Hollvinasamtökum Óðins og starfsfólk Reykjavíkurborgar og Sjóminjasafnsins í Reykjavík.
Hópurinn skoðaði einnig togarann Arctic Corsair, sem er safngripur í höfninni í Hull, rétt eins og varðskipið Óðinn í Reykjavíkurhöfn. Fyrr á þessu ári var efnt til skemmtilegrar athafnar um borð í Óðni þegar formaður Hollvinasamtaka Óðins og fyrrverandi skipverji á Arctic Corsair skiptust á bjöllum skipanna sem háðu svo marga hildi í þorskastríðunum. Um það leyti kom upp sú hugmynd að bjóða Sjóminjasafninu í Hull togvíraklippur og er skemmst frá því að segja að það boð var þegið með þökkum. Klippurnar voru svo fluttar til borgarinnar fyrr í sumar.
Nánari fróðleik um togvíraklippurnar má lesa hér .