Selveiðar verði bannaðar

Deila:

Sjávarútvegsráðuneytið hefur sett inn á samráðsgátt til umsagnar drög að reglugerð um bann við öllum selveiðum. Reglugerðin er byggð á ráðleggingum Hafrannsóknastofnunar um veiðibann.
Með lögum nr. 36/2019, um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, var lögfest ákvæði sem er 2. mgr. 11. gr. laganna, þess efnis sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra geti með reglugerð sett reglur um selveiðar, m.a. um skráningu selveiða og að banna eða takmarka selveiðar á íslensku forráðasvæði ef það er talið nauðsynlegt að mati Hafrannsóknastofnunar.

Ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar um landsel barst ráðuneytinu með bréfi stofnunarinnar, dags. 2. júlí 2019. Þar kemur fram að Hafrannsóknastofnun, í samvinnu við Selasetur Íslands hafi lokið vinnu við mat á stærð landselsstofnsins við Ísland, sem byggð sé á talningum sem fram fóru sumarið 2018. Rannsóknir sýni að mikil fækkun hafi orðið í stofninum frá árinu 1980. Samkvæmt stjórnunarmarkmiðum fyrir landsel við Ísland skuli lágmarks stofnstærð vera um 12.000 selir. Niðurstöður stofnmats gefi til kynna að fjöldinn sé nú um 21% minni. Mikilvægt sé því að grípa til aðgerða til að ná þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa sett. Með vísan til framanritaðs leggur Hafrannsóknastofnun til að sett verði bann við beinum veiðum á landsel. Stofnunin leggur einnig til að leitað verði leiða til að draga úr meðafla landsels við netaveiðar.

Í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, dags. 13. mars 2019, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi, dags. 20. ágúst 2019, kemur fram að á nýlega birtum válista Náttúrufræðistofnunar Íslands (sjá www.ni.is/midlun/utgafa/valistar) sé útselsstofninn metinn í “nokkurri hættu”. Hafrannsóknastofnun leggur til að stjórnvöld leiti leiða til að lágmarka meðafla útsela við fiskveiðar, að veiðistjórnunarkerfi verði innleitt fyrir selveiðar við Ísland og að skráningar á öllum selveiðum verði lögbundnar. Á þeim grundvelli að útselsstofninn er metinn í nokkurri hættu og ekki hefur fram að þessu reynst unnt að grípa til aðgerða til þess að lágmarka meðafla útsela við fiskveiðar er lagt til hér með varúð í huga að útselur falli undir reglugerðina og beinar veiðar á honum verði bannaðar. Til viðbótar má nefna að Hafrannsóknastofnun metur að dregið hafi mjög úr hefðbundnum nytjum á útsel á undanförnum áratugum þannig að væntanlega eru hér mjög litlir fjárhagslegir hagsmunir undir. Og enn til viðbótar má nefna að bann við markaðsfærslu á sel gæti verið haldlítið ef aðeins gilti um landsel.

Lagt er til að farið verði eftir framangreindri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og sett reglugerð um bann við selveiðum sem gildi um allar selategundir, m.a. bæði landsel og útsel.

 

Deila: