Skipið lofar góðu

Deila:

Nýr Áskell ÞH kom til Grindavíkur í gærkvöldi. Skipið er önnur nýsmíði Gjögurs hf, sem kemur til landsins í haust. Reynir Gestsson skipstjóri lætur vel af skipinu. Þeir lentu í kaldaskít út af Noregi í upphafi heimsiglingar og við Skaftárfjöru, þegar komið var upp að landinu. „Það gekk bara ágætlega og skipið lofar góðu. Hann virkar mjög vel á okkur svona við fyrstu kynni,“ segir Reynir.

Reynir segir að það sé mikill munur á þessu skipi og því gamla. „Þetta er miklu hærra og breiðara. Gamli Áskell var ekki nema 9,20 metrar á breidd. Þessi er 12 metrar á breidd og það munar miklu.“

Áskell fer síðan til Hafnarfjarðar þar sem búnaður á millidekk verður settur niður, krapakerfi og aðgerðaraðstaða. Reiknað er með að það taki um mánuð, en búnaðurinn er að mestu frá Micro.

Reynir segir að mikil áhersla sé lögð á góða meðferð aflans um borð og hraða kælingu. Honum lítist vel á að fara að fiska á nýju skipi, enda var eldri Áskell afhentur um mitt sumar. Hann reiknar með því að hafa nóg að gera þegar veiðarnar hefjast á ný.

Systurskip Áskels, Vörður, kom til landsins undir lok septembermánaðar og er nú verið að ganga frá búnaði á millidekk í honum.

Skipin eru um 28,95 metrar á lengd og 12 metrar á breidd.  Í skipunum eru tvær aðalvélar með tveimur skrúfum.  Ný kynslóð rafmagnsspila er í skipunum frá Seaonics. Íbúðir eru fyrir 13 manns og taka skipin um 80 tonn af fiski í lest eða um 244 kör, 460 lítra.
Móttökuathöfn var við bryggjuna er skipið lagðist að og tók fjölmenni á móti bátnum.
Á myndinni er Áskell að koma inn í Grindavíkurhöfn. Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

Deila: