Afli úr Smugunni og af heimamiðum

Deila:

Bjarni Ólafsson AK kom til Neskaupstaðar í fyrradag með 400 tonn af makríl sem fékkst í Smugunni. Að sögn Gísla Runólfssonar skipstjóra var þar góð veiði en síðan brældi og þá var haldið í land. Lokið var við að landa úr Bjarna nú um hádegisbil samkvæmt frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Beitir NK kom síðan til Neskaupstaðar í gærmorgun og hófst löndun úr honum strax og löndun úr Bjarna lauk. Afli Beitis er tæplega 1.200 tonn og er meirihlutinn síld. Sturla Þórðarson skipstjóri á Beiti segir að aflinn hafi fengist grunnt í Norðfjarðardýpinu. „Við drógum þarna í tvær nætur og fengum ágætan afla. Síldin kemur upp í myrkrinu. Það er töluvert af síld þarna en hún er sumstaðar makrílblönduð. Fyrri nóttina var mikið af makríl í aflanum. Í síðasta holinu sem við tókum var dregið upp við yfirborð og þá fékkst hreinn makríll. Ég hugsa að það séu um 400 tonn af makríl í aflanum sem við komum með,“ sagði Sturla í samtali á heimasíðunni.
Ljósm. Helgi Freyr Ólason

 

Deila: