Leggja til gífurlegan niðurskurð í Norðursjó

Deila:

Alþjóða hafrannsóknaráðið, ICES, leggur nú til gífurlegan niðurskurð á heimildum til veiða á þorski og ýsu í Norðursjó og vestan Skotlands. Verði farið að tillögum ráðsins  að fullu eða aðeins að hluta til mun það hafa meiri háttar neikvæð áhrif á skoska fiskveiðiflotann.

Þessar tillögur, sem fylgja í kjölfar tillagna um niðurskurð í þorsk- og ýsukvóta í Barentshafi, geta leitt til verðhækkana á þessum tveimur vinsælustu fisktegundum á Bretlandseyjum, en fiskvinnslan þar ber sig nú þegar illa undan háu fiskverði. Stórmarkaðir hafa verið að skipta um byrgja af þessum sökum, en það hefur í flestum tilfellum verið á kostnað starfa í fiskiðnaðinum.

Rétt er að geta þess í þessu tilfelli að þorskkvóti okkar Íslenslendinga hækkar lítillega á næsta ári, eða um 3% og verður 264.000 tonn, sá mesti á þessari öld. Ýsukvótinn eykst um 40% og fer í 58.000 tonn. Staða þessara fiskistofna er því miklum mun betri hér við land en á hinum hafsvæðunum.

Mesta áfallið  er að ICES leggur til að þorskkvótinn í Norðursjó á næsta ári verði helmingaður, fari úr 51.000 tonnum í 28.200 tonn. Ráðlagður ýsuafli í Norðursjó, Skagerak og við vesturströnd Skotlands er 35.671 tonn, sem er lækkun um 27%. Í ár var ýsukvótinn á þessum slóðum 48.085 tonn.

Rannsóknir ICES sýna að þorskstofninn í Norðursjó og Skagerak stendur illa vegna mikils veiðiálags. Þó ýsustofninn standi betur telur ráðið að draga verði úr veiðum vegna affalla vegna veiða og afráns.
Þessi niðurstaða er þvert á stöðuna fyrir tveimur árum, þegar norðursjávarþorskurinn var talinn á mikilli uppleið. Hluti skýringarinnar er talin léleg nýliðun.
Staðan er hins vegar betri á stofnum kola og lýsu. Ráðlagður afli í kolanum er 139.052 tonn sem  þó er lítilsháttar lækkun og ráðlagður lýsukvóti er 25.302 tonn, sem er 800 tonna lækkun. Á hinn bóginn hækkar ufsakvótinn um 23.000 tonn.
 

Deila: