Kynnir íslenska saltfiskinn

Deila:

Á dögunum var hér á landi í boði Íslandsstofu þekktur portúgalskur kokkur, m.a. til að kynna sér veiðar og saltfiskvinnslu. Kokkurinn heitir Diogo Rocha og var hann í för með Joselito Lucas, annars eiganda portúgalska saltfiskfyrirtækisins Lugrade, en Joselito hélt erindi á Markaðsdegi Iceland Seafood í Iðnó 12. janúar sl.

Diogo, sem er matreiðlumaður á veitingastaðnum Mesa de Lemos í bænum Silgueiros (u.þ.b. 90 km austan við Aveiro), hefur síðastliðið ár m.a. unnið við að kynna íslenska saltfiskinn fyrir Lugrade.
Á meðal kynninga má nefna smakk fyrir almenning í El Corte Inglés í Lissabon, í samstarfi við markaðsverkefnið um saltaðar þorskafurðir í Suður Evrópu en Íslandsstofa er framkvæmdaraðili verkefnisins, í samstarfi við u.þ.b. 25 framleiðendur og sölufyrirtæki á Íslandi.

Í Íslandsheimsókninni fór Diego m.a. á Saltfisksafnið í Grindavík og tvær fiskvinnslur. Frá annarri fiskvinnslunni kom Diego fram í beinni útsendingu á portúgölsku sjónvarpsstöðinni Porto Canal þar sem hann lofaði mjög íslenska saltfiskinn. Á veitingastaðnum Salthúsinu í Grindavík var þátttakendum í markaðsverkefninu og áhugasömum íslenskum kokkum boðið á sýnikennslu í eldun á saltfiski þar sem Diogo miðlaði af reynslu sinni við góðar undirtektir viðstaddra.

Eitt af markmiðum markaðsverkefnisins er að vinna með erlendum matreiðslumönnum og fá þá í samstarf við að kynna íslenska þorskinn á sínu svæði og sínum veitingastöðum. Heimsókn Diogo er hluti af því en á meðan dvöl sinni stóð var hann mjög virkur á samfélagsmiðlum en frá honum birtust fjölmargar færslur frá Íslandsferðinni. Til stendur að kynna sérstaklega íslenskan saltfisk á veitingastaðnum hans Diogo Rocha í Silgueiros á nokkurs konar veitingahúsaviku en áður hefur slíkt verið gert í verkefninu á tveimur veitingastöðum í Lissabon.

 

Deila: