Páll Rafnar ráðinn aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar
Páll Rafnar Þorsteinsson hefur verið ráðinn aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Páll Rafnar er með doktorspróf í heimspeki frá Cambridge háskóla og fjallaði lokaritgerð hans um lagahugtakið (nomos) í stjórnspeki Aristótelesar. Ransóknarsvið Páls Rafnars hefur aðallega snúið að hugmyndum – bæði klassískum og nútímalegum – um sanngirni, siðvit og réttlæti.
Páll Rafnar er auk þess með meistaragráðu í stjórnmálaheimspeki frá London School of Economics og BA gráðu í heimspeki og grísku frá Háskóla Íslands.
Páll Rafnar mun láta af störfum sem forseti Félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst þar sem hann hefur starfað undanfarin ár við kennslu og stjórnun. Páll starfaði þar áður sem ráðgjafi hjá almannatengslafyrirtækinu KOM. Þá hefur hann unnið að rannsóknum og við ritstörf á sviði alþjóðastjórnmála og stjórnmálaheimspeki fyrir hugveitur í Bretlandi.