Söluhorfur á makríl ágætar en verra útlit með síldina

Deila:

Á dögunum heimsóttu nokkrir starfsmenn sölufyrirtækisins Ice Fresh Seafood Neskaupstað og funduðu þar með forsvarsmönnum Síldarvinnslunnar. Gústaf Baldvinsson framkvæmdastjóri fór fyrir starfsmönnum sölufyrirtækisins og notaði heimasíðan tækifærið til að spyrja hann dálítið um sögu fyrirtækisins og horfur á sölu makríl- og síldarafurða á nýbyrjaðri vertíð.

Gústaf segir að Ice Fresh Seafood hefði verið stofnað árið 2007 og  hefur hann gegnt starfi framkvæmdastjóra frá upphafi. Hlutverk fyrirtækisins er að selja sjávarafurðir og annast það sölu bæði fyrir innlend og erlend sjávarútvegsfyrirtæki. Undanfarin ár hefur Ice Fresh Seafood selt afurðir til 50-60 landa út um allan heim. Fyrirtækið hefur höfuðstöðvar á Akureyri, skrifstofu í Reykjavík og söluskrifstofur í  Boulogne í Frakklandi, San Sebastian á Spáni og í Hull í Englandi þar sem Gústaf hefur aðsetur. Starfsmenn fyrirtækisins eru um 30 talsins og  eru þeir mikið á ferðinni en Gústaf segir að gríðarlega mikilvægt sé að heimsækja viðskiptalöndin, kynnast öllum aðstæðum þar og byggja upp traust tengsl við kaupendur.

Ice Fresh Seafood annast sölu á frystum uppsjávarafurðum Síldarvinnslunnar, sjófrystum afurðum og einnig mjöli og lýsi. Samstarfið við Síldarvinnsluna hófst strax við stofnun sölufyrirtækisins og hefur það aukist jafnt og þétt. Sérstaklega er sala á frystri loðnu, makríl og síld mikilvægir þættir í samskiptum fyrirtækjanna auk afurða fiskimjölsverksmiðjanna og því er sérhver loðnuvertíð og makríl- og síldarvertíð spennandi álagstími. Gústaf segir að sala á loðnuafurðum hafi gengið ágætlega á síðustu vertíð en staðan sé flóknari þegar kemur að makríl og síld á vertíðinni sem nú er að hefjast. „Söluhorfur á makríl eru ágætar og þar finnum við fyrir mikilli eftirspurn frá mörgum mörkuðum. Hins vegar er því ekki að neita að við höfum nokkrar áhyggjur af síldinni. Eftirspurn dróst saman á síldarmörkuðum á síðustu vertíð og verð lækkuðu mikið. Því miður sér ekki fyrir endann á þessari niðursveiflu hvað síldina varðar. Inn í þetta spilar hið svonefnda Rússabann sem er grafalvarlegt. Rússabannið hefur áhrif á nánast alla okkar sölustarfsemi því Rússland var okkar helsti markaður fyrir uppsjávarafurðir,“ segir Gústaf.

 

Deila: