Páskastopp hjá Eyjunum

Deila:

Vestmannaeyjatogararnir, Vestmannaey VE og Bergey VE, eru komnir í páskastopp en þeir lönduðu báðir fullfermi á mánudag. Nú er hrygningarstopp til 21. apríl og staða flutninga á fiski yfir hátíðina leiðir til þess að skynsamlegt er að gera hlé á veiðum.

Arnar Richardsson, rekstrarstjóri Bergs-Hugins, segir í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar, að bæði skipin muni líklega ekki halda til veiða fyrr en að kvöldi páskadags. Að sögn Arnars hefur vertíðin gengið afar vel til þessa. Venjulega hefur það tekið skipin um tvo sólarhringa að fá fullfermi og fiskurinn sem fæst er góður og verð há. Það hefur nánast ekkert truflað frábær aflabrögð nema veðrið sem hefði mátt vera betra.

Seyðisfjarðartogarinn Gullver NS hélt til veiða í gærkvöldi eftir viku stopp. Líklega mun hann koma inn til löndunar á laugardag.
Vestmannaeyjatogararnir eru komnir í páskastopp.  Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Deila: