Stöðvun strandveiða á svæði A boðuð
Strandeiðar ganga nokkuð vel það sem af er maí, en veður hefur þó hamlað veiðum nokkuð. Vel fiskast þegar bátarnir komast á sjó. Mestur er afli á svæði A að vanda og hefur stöðvun veiða verið auglýst þar. Síðasti veiðidagur á svæðinu í maí verður næsti þriðjudagur.
Aflinn á svæði A, frá Snæfellsnesi vestur á Firði, var orðinn 685,5 tonn eftir að veiðum lauk á fimmtudag í síðustu viku. Leyfilegur heildarafli á svæðinu í maí er 852 tonn og því eru óveidd 166,5 tonn. Alls hefur 191 bátur landað afla í maí og róðrarnir eru 1.074. Það gerir 693 kíló í róðri að meðaltali, eða 3,5 tonn á bát.
Aflinn á svæði B, fyrir Norðurlandi, var eftir síðustu viku orðinn 273,2 tonn. Það er rétt tæplega helmingur leyfilegs afla. 95 bátar hafa landað alls 453 sinnum og er meðal afli í róðri 607 kíló og 2,9 tonn á bát að meðaltali.
Fyrir Austfjörðum, á svæði C, var aflinn orðinn 225,8 tonn, sem er um 40% af leyfilegum heildarafla sem er 551 tonn. Fjöldi báta sem hafa landað er 65 og landanir 372. Það gerir 609 kíló að meðaltali í róðri og meðalafli á bát er 3,4 tonn.
Á svæði D, fyrir Suðurlandi, er aflinn orðinn 257,7 tonn, en leyfilegur heildarafli þar er 600 tonn í maí. 87 bátar hafa landað samtals 410 sinnum. Meðalafli í róðri er 634 kíló og meðaltals afli á bát er tæp 3 tonn.
Fari bátar á einhverju svæði yfir heimildir sínar, dregst mismunurinn frá á næsta tímabili. Nái bátarnir hins vegar ekki leyfilegum heildarafla, færist þar sem eftir stendur yfir á næst tímabil.