Heimila lyfjameðhöndlun gegn laxalús
Matvælastofnun hefur samþykkt umsókn um lyfjameðhöndlun til varnar laxalús í sjókvíum í einni eldisstöð í Arnarfirði. Meira hefur verið af laxalús að undanförnu en í hefðbundnu árferði í kjölfar mikilla hlýinda í vetur og miða aðgerðirnar að því að fyrirbyggja uppsöfnun laxalúsar í sumar. Er þetta í fyrsta sinn frá því á níunda áratugnum sem gripið hefur verið til lyfjameðhöndlunar gegn laxalús á Íslandi.
Lúsatalningar einnar sjókvíaeldisstöðvar í Arnarfirði nú í vor sýndu aukið magn af laxalús. Í vetur hafa aðstæður í sjó verið óvenjulegar vegna mikilla hlýinda. Sem dæmi var meðalhiti sjávar í Arnarfirði 3,5°C í febrúar á þessu ári en 1,5°C á sama tíma í fyrra.
Matvælastofnun fór í eftirlit á stöðinni eftir að stofnuninni bárust þessar upplýsingar, ásamt beiðni stöðvarinnar um að fá að meðhöndla fiskinn í stöðinni gegn laxalús. Stofnunin mat ástandið þannig að tilefni væri til að grípa inn í og fyrirbyggja að smitið nái að magnast upp með hækkandi sumarhita. Skoðun á eldisfiski staðfesti að lúsin kom sterk undan vetri en að fiskurinn væri heilbrigður og hraustur að öðru leyti. Því var ákveðið að fiskur í stöðinni yrði meðhöndlaður til varnar frekara lúsasmiti. Með þessari fyrirbyggjandi aðgerð nást góðar aðstæður fyrir þau seiði sem fara í kvíar í vor og einungis verður eftir hið náttúrulega smitálag, sem fylgir villtum sjóbirtingi sem gengur í og um Arnarfjörð. Einnig er komið í veg fyrir að lúsin nái sér á strik í sumar og geta rekstraraðilar þá beitt öðrum forvörnum, eins og ráðgert hefur verið, þ.á.m. hrognkelsum sem éta lús.
Laxalús telst til náttúrulegs umhverfis fiska í sjókvíaeldi sem og villtra laxfiska. Vandamál tengd henni hafa ekki verið til staðar hér á landi, enda hafa aðstæður ekki verið henni hagfelldar til vaxtar og fjölgunar. Íslensk löggjöf gerir hvorki kröfu um vöktun né talningu á lús en gerð er krafa um lúsatalningu í gæðavottunum sem flest sjókvíaeldisfyrirtæki hafa sótt um. Árið 2014 hófst vinna hjá Matvælastofnun við að útbúa leiðbeiningar um vöktun á lús. Leiðbeiningarnar eru í mótun en þær hafa það að markmiði að samræma verklag við talningu til að tryggja velferð fisks við framkvæmdina og samkvæmt þeim skal talningum skilað til Matvælastofnunar. Með vaxandi hitastigi sjávar þarf að vera á varðbergi gagnvart laxalús og fylgist stofnunin áfram með þróun mála.