Aukin verðmæti fyrir minna magn

Deila:

Útflutningur sjávarafurða frá Færeyjum á fyrsta fjórðungi ársins skilaði tæplega 2,2 milljörðum færeyskra króna, um 33 milljörðum íslenskra króna. Það er aukning um 3,8 milljarða króna miðað við sama tíma í fyrra, eða 13%. Magnið dróst hins vegar saman um 23.400 tonn, sem er 16% minna en á sama tíma í fyrra. Alls fóru utan 123.301 tonn nú.

Aukningin í verðmætum stafar fyrst og fremst af meiri útflutningi á makríl og síld, Útflutningsverðmæti á laxi jókst, en magnið dróst saman. Mestur samdráttur varð hins vegar í útflutningi á fiskimjöli.

Verðmæti útfluttra afurða úr helstu botnfisktegundum var um 4,8 milljarðar íslenskra króna, sem er nánast það sama og í fyrra. Magnið varð 11.015 tonn, sem er samdráttur um 2%. Af makríl, síld og kolmunna fóru utan 67.414 tonn, sem er aukning um 4%. Verðmætið jókst hins vegar verulega eða um 64% og varð samtals um 9,2 milljarðar íslenskra króna.

Verðmæti útflutts lax var 13,5 milljarðar íslenskra króna, sem er aukning um 12%. Magnið dróst hins vegar saman um 7% og varð alls 14.183 tonn.

Deila: