Mannfjöldi fagnaði Sólbergi
Mikill mannfjöldi fagnaði frystitogaranum Sólbergi ÓF 1 á Siglufirði á laugardag þegar Rammi hf. tók formlega við skipinu. Þorgerður K. Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra flutti stutt ávarp við þetta tilefni og sagði skipið mikinn ævintýraheim og enn einn áfangann að aukinni framleiðni í sjávarútvegi. Álfhildur Stefánsdóttir gaf skipinu formlega nafnið Sólberg ÓF 1 en þess má geta að þetta er fjórða skipið sem ber þessa einkennisstafi. Það fyrsta var Einar Þveræingur, þá Sigurbjörg, síðan frystitogarinn Sigurbjörg ÓF 1 sem nú hverfur úr rekstri við komu Sólbergs ÓF 1.
Að formlegri móttökuathöfn lokinni bauðst gestum að ganga um skipið skoða þar salarkynni og búnað. Skipið er frystitogari af fullkomnustu gerð, getur fryst um 90 tonn af afurðum á sólarhring. Í skipinu eru t.d. þrír hausarar, tvær flökunarvélar, vatnsskurðarvél fyrir bitaskurð og snyrtingu, lausfrystir, plötufrystar með sjálfvirkum búnaði til að slá úr pönnum, vöruhótel fyrir afurðaflokkun fyrir frágang á vörubretti, mjöl- og lýsisverksmiðja, svo nokkuð sé nefnt.
Tvær áhafnir verða á skipinu, 34 í hvorri áhöfn. Ný áhöfn kemur því um borð í hverri veiðiferð sem gert er ráð fyrir að verði tæplega mánuður. Skipstjórar eru Sigþór Kjartansson og Trausti Kristinsson.
Myndir Jóhann Ólafur Halldórsson.