Rauðsprettufylltar kartöflur

Deila:

Rauðspretta er fallegur fiskur og bragðast alveg einstaklega vel. Hún er vinsæll matfiskur á Íslandi og enn frekar í  Danmörku og Hollandi, þar sem mikið veiðist af henni. Hér á landi er ekki mikið um beinar veiðar á rauðsprettu nema í Faxaflóa þar sem sérstök úthlutun er á flatfiski.

En hvers vegna skyldi hún heita rauðspretta. Er hún rauð og spretthörð? Nei, hún er svargræn með rauða bletti. Hún heitir reyndar líka skarkoli, grallari, karkola, karkoli, koli, kollúra, landsynningsgrallari, lúra, rauðdepla og skurfur. Á dönsku og norsku heitir hún rödspette. Semsagt fiskur með rauða bletti. En hvað sem fiskurinn heitir á maður bara að fá sér þann fisk í matinn, sem mann langar í hverju sinni. Láta eftir sér að njóta góðs matar eftir kenjum kokksins. Það gerum við alla vega gamla settið.
Þessi uppskrift er úr bókinni Sælgæti úr sjó og vötnum og er eftir Jakob Magnússon.

Innihald:

4 meðalstórar bakaðar kartöflur
500 g rauðsprettuflök
1,5 dl hvítvín
1 laukur, fínt saxaður
1 dl fínt söxuð steinselja
1 dl rjómi
1 dl mjólk
1 eggjarauða
smjör
múskat
maísenamjöl

Aðferð:

Skerið lok af kartöflunum og holið þær innan með teskeið.
Skerið rauðsprettuflökin eftir endilöngu, saltið þau og vefjið upp þannig að roðhliðin snúi inn.
Bræðið smjör á pönnu og sáldrið lauk og steinselju á botninn. Raðið rauðsprettuflökunum á pönnuna og bætið víninu út í. Setjið lok yfir og sjóðið rauðsprettuflökin í 4-5 mínútur.
Setjið rauðsprettuflökin inn í kartöflurnar.
Hellið rjómanum á pönnuna og látið sjóða, jafnið sósuna með ögn af maísenamjöli. Fyllið kartöflurnar með sósunni.
Merjið það sem skafið var innan úr kartöflunum í gegnum sigti ofan í pott og hrærið mjólkinni og eggjarauðunni saman við, takið pottinn af hitanum og kryddið hræruna með salti og múskati. Sprautið kartöfluhrærunni síðan á lokin af kartöflunum og á diskana sem kartöflurnar eru bornar fram á.

Deila: