Veiðidögum á strandveiðum fjölgar
Eftir aukningu sjávarútvegsráðherra á hámarksafla á strandveiðum um 560 tonn, er fyrirsjáanlegt að veiðar bátanna muni standa mun lengur en það stefndi í. Þannig eru nú eftir óveidd 428 tonn á svæði A í stað 178 tonna hefði aukningin ekki komið til. Þá eru nú óveidd 362 tonn á svæði B, í stað 242 tonna, á svæði C eru óveidd 357 tonn og 250 á svæði D. Aukningin á svæði B er þannig 140 tonn og 50 tonn á svæði D.
Á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda er gert ráð fyrir því að þessar auknu heimildir dugi í fjóra veiðidaga til viðbótar á svæði A, 6 veiðidagar séu aftir á svæði B, 5 dagar á svæði C og að á svæði D dugi heimildirnar út tímabilið. Er þá tekið mið af aflanum fyrstu þrjá daga þessa tímabils.
Fyrstu þrjá veiðidaga ágústmánaðar varð aflinn á svæði A 389 tonn í 565 róðrum. Meðalafli í róðri er 688 kíló og afli á bát að meðaltali 1,7 tonn.
Á svæði B varð aflinn 192 tonn í 285 róðrum. Meðalafli í róðri er 674 kíló og afli á bát að meðaltali 1,4 tonn.
Á svæði C er aflinn 210 tonn í 297 róðrum. Meðalafli í róðri er 709 kíló og meðalafli á bát 1,7 tonn.
Á svæði D er aflinn 59 tonn í 118 róðrum. Meðalafli í róðri er 498 kíló og afli á bát að meðaltali 550 kíló.