Pönnusteiktur makríll
Þegar við skruppum í bryggjurúntinn okkar í Keflavík í vikunni sáum við að makríllinn var vaðandi þar rétt fyrir utan og bátarnir lágu yfir honum og fiskuðu vel. Þess vegna datt okkur í hug að leita að uppskrift að makríl. Það er fiskur sem Íslendingar hafa ekki átt að venjast á matarborðunum heimafyrir, enda hefur hann ekki veiðst hér við land fyrr en á síðustu árum. Íslendingar eru ekki vanir að borða ókunnuglega fiska, nema í útlöndum, en nú er makrílinn orðinn hálfgerður heimalningur sem kemur hérna til að éta smærri fiska til að fita sig og er þá ekki rétt að gjalda líkt með líku og éta hann. Þessa fínu uppskrift fundum við á netinu og leggjum til að menn leggi sér makríl til munns í meiri mæli en áður. Við munum gera það. Uppskriftin er fyrir fjóra. Hún er fengin af allskonar.is og fer hér á eftir.
Innihald:
4 makrílflök
2 msk olía
1 rautt chilli, fínsaxað og fræhreinsað
1 skallottulaukur, fínsaxaður
4 hvítlauksrif, fínsöxuð
2 tsk tælensk fiskisósa
1/2 tsk chiliflögur
1 msk hrásykur
salt og pipar
Aðferð:
Hreinsaðu vel flökin, skolaðu vel af roðinu, þurrkaðu þau og stráðu smá salti og pipar yfir báðar hliðar. Láttu til hliðar í 10 mínútur. Saxaðu og taktu til allt annað hráefni á meðan.
Settu nú olíuna í pönnuna og steiktu fiskinn þar til hann er gullinn á báðum hliðum. Mér finnst best að byrja á að steikja hann með roðið niður og steikja í 4-5 mínútur, snúa svo við og steikja í 1-2 mínútur.
Settu nú chili, laukinn, hvítlauk, fiskisósuna og hrásykurinn yfir fiskiflökin og lækkaðu hitann undir pönnunni. Snúðu fisknum nokkrum sinnum á 15-20 sekúndna fresti til að flökin fái nóg af sósu á sig. Sósan þykknar hratt, þegar það gerist er fiskurinn tilbúinn.
Æðislegt með fersku salati, kartöflum eða hrísgrjónum og vel kældu J.P. Chenet Medium Sweet hvítvíni.