Ofnsteikt lúða með salsa og kúskús
Lúða er ljúfmeti. Hún er drottning fiskanna og undirdjúpin eru hennar yfirráðasvæði. Að draga lúðu á færi þótti áður mikill happadráttur og vita á gott, en nú er það bannað. Allri lífvænlegri lúðu sem kemur um borð skal sleppa en hinni skal landa á fiskmarkaði og andvirði hennar renna í sjóði hins opinbera til styrktar rannsóknum á sviði sjávarútvegs. Bannið hefur verið í gildi í nokkur ár vegna bágrar stöðu lúðustofnsins og er blátt bann lagt við öllum beinum veiðum á lúðu.
En það breytir ekki því hve góður matur lúðan er og því birtum við hér eina góða uppskrift til að njóta á fallegu síðkvöldi.
Innihald:
Salsa:
1 rauðlaukur
4 tómatar (stórir)
2 msk steinselja
½ sítróna (safi)
Fiskur:
600 g smálúðuflök(roðflett)
2 msk kúmínduft
1 tsk kóríanderduft
1 tsk natríumskert salt
½ sítróna (safi)
1 tsk nýmalaður pipar
Kúskús:
180 g kúskús
2 msk steinselja
sítrónusneiðar
Aðferð:
Skerið rauðlauk og tómata í teninga. Saxið steinseljuna. Blandið vel saman og kreistið sítrónusafa yfir.
Hitið ofninn í 175°C. Blandið saman kúmín- og kóríanderdufti, natríumskertu salti og pipar.
Kreistið sítrónusafa yfir flökin og stráið kryddblöndunni yfir. Setjið í álpappír og inn í 175°C heitan ofninn og bakið í 15-20 mínútur (fer eftir þykktinni). Hellið salsablöndunni yfir síðustu 5 mínúturnar.
Hellið sjóðandi vatni yfir kúskúsið og látið það standa skv. leiðbeiningum á pakka og bætið smátt saxaðri steinselju saman við. Einnig er gott að bæta út í kúskúsið ferskum kryddjurtum eins og graslauk og dilli.