Þorskur með mozzarella og tómötum

Deila:

Þorskurinn er alltaf góður, ferskur og fallegur nánast beint upp úr bátnum í flökun og á diskinn okkar. Það er óvíða sem hægt er að fá jafngóðan þorsk og hér á Íslandi. Hágæða fiskur úr sjálfbærum veiðum.
Þorskinn má, eins og flestir vita, elda á óteljandi vegu og þess vegna ætti enginn að fá leið á honum. Mikilvægt er að borða fisk helst tvisvar í viku til að fá úr honum helling af vítamínum og hollum fitusýrum. Þessi uppskrift er ættuð frá Alaska.

Innihald:

3 msk sólþurrkaðir tómatar í olíu, þurrkaðir og saxaðir
½ bolli steinlausar ólífur að eigin vali
4 stykki af þorskflökum 100 til 150 gr hvert
ólífuolía
salt og pipar
4 þunnar sneiðar af mozzarella osti
nokkrir cherry tómatar
fersk basilíka

Aðferðin:

Hitið ofninn í 220 gráður. Smyrjið ofnfast mót innan með ólífuolíu. Blandið saman ólífum og sólþurrkuðu tómötunum í skál.

Þurrkið fiskstykkin með pappírsþurrku. Penslið stykkin báðum megin og leggið í eldfasta mótið. Bakið fiskinn í ofninum í 5 mínútur.

Takið fiskinn út út ofninum og kryddið með salti og pipar. Dreifið tómatblöndunni yfir fiskinn. Leggið ostsneiðarnar þar ofan á og síðan cherrytómatana og ýrið smávegis af ólífuolíu yfir.

Setjið fiskinn aftur inn í ofninn og bakið í 5 til 6 mínútur, eða þar til fiskurinn er bakaður í gegn.

Berið fram með góðu salati, hrísgrjónum eða soðnum kartöflum.

 

 

Deila: