Innbökuð fiskisúpa

Deila:

Nú gerum við vel við okkur og fáum okkur gómsæta fiskisúpu. Uppskriftin er fyrir fjóra og er súpan full máltíð ein og sér. Þetta er sérstaklega góður veisluréttur og auðvelt að auka eða minnka uppskriftina. Þetta er til dæmis vel til fallin uppskrift að rómantísku kvöldi fyrir elskendur á öllum aldri. Glas af góðu víni og Harry Belafonte á fóninum fyrir okkur sem eldri erum, Ed Shiran fyrir hina.

Innihald:

300-400g fiskur að eigin vali. Nota má ýmist eina tegund eða tvær til þrjár í bland. Til dæmis, lúðu, ýsu og silung.

500g rækja með skel. (Eða humar)
1 laukur
3 msk. smjör
2 ½ msk. hveiti
1l vatn
1 teningur fiskikraftur
1 tsk. timian
½ tsk. piparkorn
1dl rjómi
2 msk. sérrí
Lítil krukka af grásleppuhrognum
2 plötur smjördeig
2 hrærð egg til límingar.

Aðferð:

Gætið þess að fiskurinn sé roð- og beinlaus og skafið fiturönd af ef hún er á fiskinum. Skerið fiskinn í hæfileg munnbita. Skelflettið rækjuna og leggið skelina til hliðar. Flysjið laukinn og saxið hann smátt.
Bræðið smjöri í miðlungsstórum potti. Látið laukinn og rækjuskelina krauma í pottinum um stund. Veiðið þá skelina upp úr pottinum og hendið henni. Hrærið hveitið varlega út í smjörið og bætið vatni smávegis út í. Myljið fiskiteninginn út í. Leggið fiskinn í pott með smávegis af vatni og súpugrunni og látið suðuna koma upp.  Færið fiskinn upp með fiskispaða og jafnið í fjórar eldfastar súpuskálar.

Hrærið soðið af fiskinum yfir í súpugrunninn og bætið rjóma, sérrí, timiani, piparkornum og grásleppuhrognunum út í og smakkið til. Jafnið súpunni og rækjunni í skálarnar. Skerið smjördeigsplöturnar í tvennt og fletjið þær út þannig að hver plata dugi ríflega yfir hverja skál.  Hreinsið ytri barma skálanna og berið eggjahræruna á þá. Leggið loks smjördeig yfir hverja skál þannig að deigið nái aðeins út fyrir. Penslið  yfirborð deigsins með eggjablöndunni.

Bakið í 225°C heitum ofni og gætið þess að allar skálarnar komist þar fyrir í einu. Þegar smjördeigið er orðið hæfilega hefað og gullið er súpan tilbúin. Berið fram með glasi af kældu hvítvíni fyrir þá, sem það vilja og góðu brauði.

Deila: