Strandveiðar og veiðigjald í brennidepli

Deila:

Lenging strandveiðitímabilsins, veiðigjald, netaveiðar smábáta, lokun veiðisvæða í Faxaflóa, veiðar stærri báta innan þriggja mílna, dragnótaveiðar og margt fleira verður til umræðu á aðalfundi Landssambands smábáta, sem haldinn verður upp úr miðjum mánuði.

Svæðafélögin hafa verið að halda aðalfundi sína á undanförnum tveimur vikum, en tillögur frá þeim verða teknar til umræðu og afgreiðslu á Aðalfundi LS.

Stefán Hauksson, formaður Árborgar – félags smábátaeigenda á Suðurlandi, segir í færslu á heimasíðu LS að starf félagsins að mestu hafa snúist um veiðigjöld, strandveiðar og landhelgina.

Veiðigjöld á þorski og ýsu væru orðin afar íþyngjandi og ekki í nokkrum takti við það verð sem fengist fyrir þær tegundir.  Leiðrétting væri af þeim sökum sjálfsögð og með ólíkindum að hún hefði ekki enn verið gerð.

Stefán sagði brýnt að halda áfram að þróa strandveiðarnar.  Lengja þyrfti tímabilið um mánuð í báða enda til að það taki til fiskgengdar á hverju veiðisvæði.

Á aðalfundi félagsins var snörp umræða um ágang togskipa við suðurströndina.  Búið væri að fella úr gildi 3 mílna landhelgi sem verndað hefði uppvöxt og viðgang þessa mikilvæga svæðis.  Í umræðunni var vitnað til að veiðar með dragnót svo nærri landi hefði skaðað svæðið og leitt til þess að ýsa hefði ekki veiðst þar í fjölmörg ár.  Fundurinn samþykkti tillögu um að veiðar með dragnót innan 3ja sjómílna við suðurströndina verði bannaðar.

Formaður Sæljóns á Akranesi Jóhannes Símonsen ræddi á aðalfundi félagsins um fyrirhugaðar lokanir á línu- og handfæraveiðar í Faxaflóa.  Kæmu tillögurnar til framkvæmda blasti ekkert annað við en að leggja árar í bát í orðsins fyllstu merkingu.

Jóhannes sagði það miður að allir smábátaeigendur á Akranesi væru ekki félagsmenn í Sæljóni og beindi þar orðum sínum að eigendum báta yfir 20 brúttótonnum.  Hann hvatti félagsmenn að ræða við þessa aðila og fá þá á fund þar sem þeirra baráttumál væru ávallt til umræðu á fundum smábátaeigenda.

 

Deila: