Meira og minna i boði

Deila:

Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) hefur gefið út ráðleggingar  um veiðar ársins 2020 fyrir norsk-íslenska síld, makríl og kolmunna. Lagt er til að minna verði veitt af síld, svipað af kolmunna og meira af makríl.

Norsk-íslensk vorgotssíld

ICES leggur til í samræmi við samþykkta aflareglu strandríkja að afli ársins 2020 verði ekki meiri en 526 þúsund tonn. Ráðgjöf yfirstandandi árs var 589 þúsund tonn og er því um að ræða 11% lækkun í tillögum ráðsins um afla næsta árs. Ástæða þess er fyrst og fremst að stofninn er enn á niðurleið eftir slaka nýliðun um árabil. Áætlað er að heildarafli ársins 2019 verði um 774 þúsund tonn sem er 31% umfram ráðgjöf.
Upplýsingar um ráðgjöfina og forsendur hennar má nálgast hér og frekari upplýsingar má finna í tækniskýrslu sérfræðinganefndar ICES.

Makríll

ICES leggur til, í samræmi við nýtingarstefnu sem mun leiða til hámarks afraksturs til lengri tíma litið (MSY), að afli ársins 2020 verði ekki meiri en 922 þúsund tonn. Ráðgjöf yfirstandandi árs var 770 þúsund tonn og er því um að ræða tæplega 20% aukningu í tillögum ráðsins um afla næsta árs. Áætlað er að heildarafli ársins 2019 verði um 835 þúsund tonn, rúm 9% umfram ráðgjöf.
Upplýsingar um ráðgjöfina og forsendur hennar má nálgast hér og frekari upplýsingar í tækniskýrslu sérfræðinganefndar ICES.

Kolmunni

ICES leggur til, í samræmi við langtímanýtingarstefnu, að afli ársins 2020 verði ekki meiri en 1,161 milljón tonn. Ráðgjöf fyrir árið 2019 var mjög svipuð eða 1,14 milljón tonn en gert er ráð fyrir að aflinn á árinu verði um 1,44 milljón tonn, 26% umfram ráðgjöf.
Upplýsingar um ráðgjöfina og forsendur hennar má nálgast hér og frekari upplýsingar í tækniskýrslu sérfræðinganefndar ICES.

Ráðgjöf ICES má í heild sinni finna á vef ráðsins., ices.dk.

 

Deila: