Hafa áhyggjur af framtíð strandveiða

Deila:

Framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda hefur áhyggjur af framtíð strandveiða, sem sé nánast eini möguleikinn fyrir nýliða til að hefja útgerð og róa til fiskjar á eigin bát. Um sé að ræða afla sem tryggi hámarksverð fyrir það sem tekið sé úr sameiginlegri auðlind landsmanna. Strandveiðar séu eins umhverfisvænar og sjálfbærar og hugsast getur.

Örn Pálsson skrifar grein um málið í Morgunblaðið, sem einnig er birt á vef LS. Þar ræðir hann nýtilkomin drög að frumvarpi Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra. Örn bendir á að í Í frumvarpinu er í engu lagt til að auka jafnræði við strandveiðar milli landshluta eins og ráðherra hefur lagt áherslu á. Í frumvarpinu sé heldur ekki lagt til að heimildir til strandveiða verði auknar. Það gangi í berhögg við vilja 72,3% þjóðarinnar sem vilja að veiðiheimildir til strandveiða verði auknar.

Hann bendir á að í frumvarpinu leggi ráðherra til að strandveiðar verði skertar í upphafi næsta kjörtímabils, sumarið 2026, með því að ufsi verði ekki lengur bónus við strandveiðar. Loks nefnir Örn að lagt sé til að ekki verði lengur skylt að halda frá 5,3% af heildarafla til strandveiða og annarra byggðatengdra veiða. Nú verði ráðherra það einungis „heimilt”.

Örn bendir á að ráðherra hafi á aðalfundi LS í október sagt að Strandveiðar skiptu máli þegar kæmi að atvinnu og eflingu byggðar í landinu. „Að því mun ég huga í heildarlögum um sjávarútveg sem lögð verða fram næsta vetur. Ég hef staðið með strandveiðum og hyggst gera það áfram.”

Örn segir að 750 sjálfstæða útgerðarmenn strandveiðibáta setji hljóða.

Deila: