Krefjast rannsóknar á embættisfærslu Høgna Hoydal

Deila:

Stjórnarandstaðan á færeyska lögþinginu krefst þess að Høgni Hoydal, sjávarútvegsráðherra Færeyja og formaður Þjóðveldisflokksins, sæti opinberri rannsókn vegna afskipta hans af ólögmætum flutningi kvóta frá línuveiðibát til uppsjávarskips. Færeyska útvarpið greinir frá þessu.

Í frétt færeyska útvarpsins segir að 15 lögþingsmenn stjórnarandstöðunnar hafi skorað á þingforseta að skipa sérstakan rannsakanda til að fara í saumana á þætti Høgna í flutningi kolmunnakvóta frá línuveiðiskipinu Helenu til uppsjávarskipsins Slættaberg.  Í vefútgáfu dagblaðsins Dimmalætting kemur fram að þetta gerðist í tvígang; í maí síðastliðnum og í júní á síðasta ári. Er því haldið fram að þessar tilfærslur hafi ekki verið í samræmi við fiskveiðilöggjöfina færeysku.

Í umfjöllun Dimmalætting má lesa þær spurningar, sem stjórnarandstæðingar vilja að rannsakandinn leiti svara við. Meðal annars er spurt, hvort sjávarútvegsráðherrann hafi tekið þátt í eða vitað af tilflutningi kvóta, í bága við gildandi fiskveiðistjórnunarlög, hvort sjávarútvegsráðuneytið hafi tekið þátt í þeim gjörningi, hvort Høgni Hoydal hafi gefið lögþinginu rangar eða villandi upplýsingar um sína aðkomu að málinu og hvort lögmaður Færeyinga hafi sinnt eftirlitsskyldu sinni sem skyldi í þessu máli.

Frétt af ruv.is

 

Deila: