Mikil sóknarfæri

Deila:

Mikil sóknarfæri eru nú á Vestfjörðum og útlitið bjartara en í áratugi. Hagsmunamál okkar Vestfirðinga hafa ekki bara þýðingu fyrir Vestfirði, heldur þjóðina alla. Þar má nefna helst virkjunaráform, uppbyggingu fiskeldis og samgangna. Hér eru íbúar og fyrirtæki tilbúin í uppbyggingu en samt gerist allt á hraða snigilsins. Málin bara þvælast um í kerfinu og þegar forsvarsmenn verkefna eru spurðir, hvar sé málið statt, hafa þeir stundum ekkert svar. Málið er bara í kerfinu. Einhverskonar svartholi sem enginn skilur.

Daniel Jakobsson

Þannig kemst Daníel Jakobsson, oddviti Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, að orði í grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið laugardaginn 8. júlí sl. Hér fer á eftir hluti greinarinnar þar sem Daníel fjallar um málefni fiskeldis.

Svarthol sem enginn skilur

Mikil sóknarfæri eru nú á Vestfjörðum og útlitið bjartara en í áratugi. Hagsmunamál okkar Vestfirðinga hafa ekki bara þýðingu fyrir Vestfirði, heldur þjóðina alla. Þar má nefna helst virkjunaráform, uppbyggingu fiskeldis og samgangna. Hér eru íbúar og fyrirtæki tilbúin í uppbyggingu en samt gerist allt á hraða snigilsins. Málin bara þvælast um í kerfinu og þegar forsvarsmenn verkefna eru spurðir, hvar sé málið statt, hafa þeir stundum ekkert svar. Málið er bara í kerfinu. Einhverskonar svartholi sem enginn skilur.

Fiskeldi getur orðið verðmætasta útflutningsgrein okkar.
Á Vestfjörðum hefur fiskeldi verið að byggjast upp. Í samanburðir við aðrar nágrannaþjóðir okkar er það hinsvegar agnarsmátt. Fiskeldi er orðið stærra að umfangi en sala villtra sjávarafurða bæði í Noregi, Færeyjum og Skotlandi. Enda er það skynsamlegt því hagkvæmt er að framleiða mat í sjó og laxfiskur þykir heppileg fæða út frá lýðheilsusjónarmiðum.

Nú þegar er búið að fjárfesta fyrir á þriðja tug milljarða í fiskeldi á Vestfjörðum og á þriðja hundrað manns vinna við eldið í nánast öllum sveitarfélögum fjórðungsins. Áform fiskeldisfyrirtækjanna eru hófleg og raunhæf en til að geta vaxið og dafnað þurfa þau leyfi. Leyfin fara í umsóknarferli þar sem hinar ýmsu ríkisstofnanir koma að og ætti taka 1-2 ár að jafnaði. En svo er ekki.

 

„Ground hog day“

Hér lifa eldisfyrirtækin „Ground hog day“ – það sama aftur og aftur. Þegar frestir stofnanna eru að líða, taka þær upp pennann og óska eftir frekari skýringum. Þá kaupa þær sé meiri tíma. Þegar þær geta ekki keypt sér meiri tíma senda þær bréf þar sem afsakað er að ekki sé hægt að svara innan tilskilins frests vegna manneklu og fjárskorts. Ja, eða gefa bara enga skýringu eða þá þokukennda. Allir sem vilja, sjá að þetta er fyrirsláttur óhæfra embættismann og stjórnenda vanvirkra stofnanna sem jafnvel virðast láta persónulegar skoðanir sínar á framkvæmdum ráða för! Stjórnendum stofnanna sem virka með þessum hætti á að skipta út. Þeir eiga ekki að komast upp með svona vinnubrögð og ráðamönnum ber skylda til að sjá til þess að í stofnunum séu hæfir stjórnendur sem virða lög, reglur og tímaramma, og fara að gerðum samþykktum og ákvörðunum æðri stjórnstiga.

Eitt mikilvægasta mál opinberra fjármála í landinu

Hvað fiskeldi varðar er það sennilega eitt mikilvægasta mál opinberra fjármála á landinu í dag, að vel takist til með uppbyggingu fiskeldis. Innan fárra ára gætu tekjur af fiskeldi orðið meiri en af hefðbundnum sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Það mun skila sér í auknum skatttekjum ríkisins. Þannig að mikið er undir fyrir samfélagið okkar og þar með ríkissjóð.

Deila: