Rannsaka lífríki miðsjávarlaga

Deila:

Nýtt Evrópusambandsverkefni sem Hafrannsóknastofnun er aðili að, Rannsóknir á lífríki miðsjávarlaga (MEESO), stendur nú yfir.
Hafrannsóknastofnun er þátttakandi í alþjóðlegu rannsóknaverkefni, MEESO („Ecologically and economically sustainable mesopelagic fisheries“), sem beinist að lífríki miðsjávarins í Norður-Atlantshafi. Verkefnið hefur hlotið styrk úr svonefndri Horizon-2020 áætlun Evrópusambandsins og er hlutur Hafrannsóknastofnunar af heildarstyrkfjárhæðinni um 100 milljónir króna. Verkefnið er til fjögurra ára, en það hófst 1. september síðastliðinn og því lýkur haustið 2023. Alls taka 19 rannsóknastofnarnir frá 10 Evrópulöndum þátt í verkefninu. MEESO verkefninu er stýrt af norsku Hafrannsóknastofnuninni, en Ástþór Gíslason sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun hefur með höndum umsjón íslenska verkhlutans.

Markmið
Meginmarkmið verkefnisins er að auka þekkingu á magni, dreifingu, tegundasamsetningu, framleiðni og nýtingarmöguleikum lykiltegunda í miðsjávarlögunum og hlutverki þeirra í kolefnisbúskap hafsins. Verkefnið einskorðast ekki við fiska, heldur verður magn og framleiðni hryggleysingja einnig rannsökuð, enda er talið að magn þeirra í miðsjávarlögunum sé umtalsvert, jafnvel af sömu stærðargráðu og fiska.

Fjölbreytt lífríki
Með miðsjó er yfirleitt átt við þann hluta hafsins sem er á 200-1000 m dýpi. Hann þekur um 60% af yfirborði jarðar og er um 20% af heildarrúmmáli hafsins. Takmörkuð fyrirliggjandi gögn benda til þess að magn lífvera í miðsjávarlögunum sé geysimikið. Þannig gera nýlegar áætlanir um fiskmagn í þessum lögum ráð fyrir að heildarlífmassi þeirra sé af stærðargráðunni 10.000 milljónir tonna, eða um 100 sinnum meiri en heildarfiskafli í heiminum. Talið er líklegt að sumar tegundir megi nýta og í ljósi þess hversu mikið er af þeim er eftir miklu að slægjast ef til nýtingar kemur.

Hvað varðar úthafssvæðin við Ísland, hafa nýlegar rannsóknaniðurstöður í öðru rannsóknaverkefni, sem Hafrannsóknastofnun var aðili að og einnig var styrkt af Evrópusambandinu (Euro-Basin), leitt í ljós að magnið er sérstaklega mikið í Grænlandshafi, talsvert meira en í Noregshafi og Íslandshafi. Með þátttöku sinni mun Hafrannsóknastofnun því leggja sérstaka áherslu á Grænlandshaf og aðliggjandi hafsvæði.

Takmörkuð þekking
Vitneskja um miðsjávarlög er takmörkuð, sem tengist því hversu erfitt er að rannsaka lífríkið og ná sýnum á svo miklu dýpi, enda er mikilvægur liður í verkefninu að þróa nýja tækni og aðferðir til að rannsaka miðsjávarfánuna.

Nýtingarmöguleikar
Í MEESO verkefninu mun verða lagt mat á hvort gerlegt er að nýta einhverjar lífverur miðsjávarfánunnar á sjálfbæran hátt. Liður í verkefninu er þróun veiðiaðferða og úrvinnslu aflans.

Aðkoma Hafrannsóknastofnunar
Fjölmargar rannsóknastofnanir munu ljá verkefninu lið í formi skipatíma á sjó. Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar munu einkum taka þátt í verkefnum sem beinast að þróun nýrrar tækni til að rannsaka miðsjávarlögin (bergmáls- og ljósmyndatækni, nýjar gerðir af miðsjávarvörpum) og beitingu þessarar tækni til að kortleggja miðsjávarfánuna í djúpunum kringum Ísland. Ráðgert er að nýta til þess ýmsa rannsóknaleiðangra stofnunarinnar. Úrvinnsla mun hafa það að meginmarkmiði að kortleggja gerð (magn, útbreiðsla, tegundasamsetning) og starfsemi (fæðuvistfræði, vöxtur, dægur- og árstíðafar) miðsjávarslaganna í djúpunum í kringum Ísland. Þessar upplýsingar munu nýtast til að meta hvort nýta megi einhverjar lífverur miðsjávarsins.

 

 

Deila: