Hætta við söluna á Ögurvík að sinni

Deila:

Útgerðarfélag Reykjavíkur (ÚR), áður Brim, hefur ákveðið að hætta við söluna á félaginu Ögurvík til HB Granda fyrir 12,3 milljarða. Ákvörðunin er tekin í kjölfar þess að lífeyrissjóðurinn Gildi, sem er hluthafi í HB Granda, fór fram á óháð mat á því hvort viðskiptin væru hagstæð fyrir HB Granda samkvæmt frétt á ruv.is.

Í bréfi sem Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri ÚR, hefur sent HB Granda, segir að tillaga Gildis sé um fjórða óháða verðmatið á Ögurvík og hún sýni að ekki hafi tekist að eyða öllum efasemdum um að viðskiptin séu gerð á grundvelli armslengdarsjónarmiða.

Í ljósi reynslu, þekkingar og kunnáttu ÚR á minnihlutavernd, deilum hluthafa og einlægum vilja forsvarsmanna félagsins til að starfa í sátt, samlyndi og án átaka við aðra hluthafa í þeim félögum sem ÚR er hluthafi í, sé það vilji ÚR að ekki verði farið í viðskiptin með Ögurvík að þessu sinni. „ÚR telur það ekki skynsamlegt að knýja viðskiptin í gegn á þessum tímapunkti gegn efasemdum (vilja) eins af stærri hluthöfum í HB Granda,“ segir í bréfinu.

Greint hefur verið frá því að Samkeppniseftirlitið hefur haft viðskiptin til skoðunar. Eigandi ÚR og Ögurvíkur, Guðmundur Kristjánsson, er forstjóri og stærsti hluthafi HB Granda.

 

Deila: