Fiskeldisfrumvarpið orðið að lögum
Alþingi samþykkti á tólfta tímanum í gærkvöldi frumvarp sjávarútvegsráðherra sem veitir honum heimild til að veita rekstrarleyfi í fiskeldi til bráðabirgða. Ráðherra mælti fyrir frumvarpinu á þriðja tímanum í dag og atvinnuveganefnd fundaði í allt kvöld vegna málsins. 45 þingmenn samþykktu frumvarpið og 6 sátu hjá samkvæmt frétt á ruv.is
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra sagði við lokaatkvæðagreiðslu að hann væri þakklátur þinginu fyrir þann skilning að vinna málið undir mikilli pressu og að það hafi verið brýn nauðsyn að bregðast skjótt við í þessu máli. „Þessi mál voru komin í blindgötu. Með því verklagi sem Alþingi hefur viðhaft í dag þá er búið að opna þetta og þetta er ekki lengur botnlangi heldur opin gata og gefur okkur færi að byggja áfram upp á Ísland á grundvelli gegnsærrar og góðrar stjórnsýslu.“
Þeir sem sátu hjá sögðust bera virðingu fyrir verkefninu en væru afar ósáttir við málsmeðferðina, þeir hefðu þurft lengri tíma. „Undir þessum kringumstæðum sit ég hjá en það felur ekki í sér að ég sé á móti málinu. Ég einfaldlega þarf meiri tíma til að vinna svona mál,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist stundum líða eins og verið væri að spinna Ísland dag frá degi af fingrum fram. Hann ætti erfitt með að fella sig við inngrip eins og frumvarpið fæli í sér. „Okkur ber skylda til þess gagnvart íslenskri náttúru, gagnvart sjálfum okkur og framtíðinni að við vöndum okkur eins og kostur er, ekki síst þegar um er að ræða framkvæmdir sem hafa djúptæk áhrif á landið okkar.“ Hann hefði efasemdir um þessa málsmeðferð og sæti því hjá.
Stuðningsmenn frumvarpsins sögðust styðja með þessu Vestfirði og brothættar byggðir. „Ég lít svo á að með þessu frumvarpi sé verið að senda þau skilaboð að áfram skuli stefnt að uppbyggingu í fiskeldi á Íslandi.“ sagði Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Með frumvarpinu væri jafnframt verið að senda þau skilaboð að lögin og stjórnsýslan snúist um „fólk, velferð þess og tækifæri til sjálfsbjargar.“
Frumvarpið öðlast þegar gildi.