Mannbjörg er Blíða sökk

Deila:

Mann­björg varð þegar Blíða SH sökk norður af Lang­eyj­um á Breiðafirði um há­deg­is­bil í gær. Skip­verj­ar á Leyni fengu boð frá Land­helg­is­gæsl­unni klukk­an 11.45 um að svip­ast um eft­ir Blíðu, sem þá var horf­in af rat­sjá. Sjálf­virkt neyðarkall barst ör­skömmu síðar og þá var allt sett á fulla ferð. Leynir bjargaði síðan áhöfninni á Blíðu en mennirnir voru komnir kaldir og hraktir um borð í björgunarbát á hvolfi.

Blíða SH var 61 tonns bát­ur, smíðaður árið 1971 og stækkaður 1988. Bát­ur­inn var í eigu Royal Iceland ehf. og var á beitu­kóngsveiðum.

„Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá togbátbát sem staddur var norður af Stykkishólmi á tólfta tímanum í gær. Þrír voru um borð. Þyrla Landhelgisgæslunnar var þegar í stað kölluð út sem og sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Þá voru skip og bátar í grenndinni beðnir um að halda á vettvang. Klukkan 12:08 var búið að bjarga mönnunum, sem komnir voru í björgunarbát, af nálægu fiskiskipi sem kom á staðinn. Bátur mannanna er sokkinn. Þyrla Landhelgisgæslunnar var þá afturkölluð. Báturinn datt úr tilkynningarskyldu hjá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og skömmu síðar barst neyðarskeyti frá honum. Þá sást neyðarblys á lofti. Samvinna björgunaraðila og skipa á svæðinu var til algjörrar fyrirmyndar en búið var að bjarga mönnunum um borð í fiskiskipið rúmum hálftíma eftir að neyðarkallið barst,“ segir í færslu á heimasíðu Landhegisgæslunnar.

 

Deila: