Fullfermi í tvígang

Deila:

Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði fullfermi eða um 80 tonnum í Vestmannaeyjum á miðvikudaginn og síðan aftur í Neskaupstað á sunnudagsmorgun. Þetta kemur fram á vef Síldarvinnslunnar.

Þar er haft eftir Birgi Þór Sverrissyni skipstjóra: „Í fyrri túrnum veiddum við á Þorsteinsboða og á Pétursey og Vík. Þarna fékkst góður blandaður afli og var gott kropp allan túrinn. Þetta var þorskur, ýsa, steinbítur, koli, þykkvalúra og ufsi. Í seinni túrnum vorum við á Ingólfshöfða og þar var aflinn einnig blandaður. Síðan var haldið á Stokksnesgrunn í góða ýsuveiði. Í báðum túrunum var fínasta veður. Staðreyndin er sú að aflabrögð hafa verið stabíl og fín að undanförnu. Það hefur fengist góður afli austan við Eyjar og þar má til dæmis fá steinbít og löngu, en það er heldur erfiðara að eiga við flatfiskana, kola og þykkvalúru. Til að ná góðum ýsuafla þarf hins vegar að fara austar. Það verður að segjast að veiðin hefur almennt verið jöfn og góð,“ segir Birgir Þór.

Deila: