Sjávarútvegurinn er spennandi grein
Hún byrjaði að vinna við sjávarútveg sem krakki hjá föður sínum Karli Sveinssyni á Borgarfirði eystri í saltfiski. Hún reyndi einnig að fara á sjó á trillu. Það gekk ekki. „Sjóveiki hlýtur að vera ein versta veiki sem til er.“ Hallveig Karlsdóttir gæðastjóri há Skinney-Þinganesi er maður vinunnar á Kvótanum að þessu sinni.
Nafn?
Hallveig Karlsdóttir
Hvaðan ertu?
Frá Borgarfirði eystra
Fjölskylduhagir?
Í sambúð með Gunnari Erni Olgeirssyni
Hvar starfar þú núna?
Ég er gæðastjóri hjá Skinney-Þinganes
Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?
Ég byrjaði frekar ung að vinna í fiskvinnslu hjá föður mínum, Karli Sveinssyni á Borgarfirði eystri. Ég þurfti að standa á palli þegar ég var að pækla svo ég næði fiskunum sem voru neðst í karinu, svo lítill var maður. Ég tók við starfinu mínu hjá Skinney-Þinganes í apríl 2017 og útskrifast sem sjávarútvegsfræðingur n.k. júní.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?
Fyrst og fremst finnst mér starfið mitt mjög fjölbreytt og krefjandi sem hvetur mann áfram í að gera betur. Sjávarútvegurinn er spennandi grein sem er gaman að fá að vera þátttakandi í. Mér finnst líka skemmtilegt hvað maður kynnist mörgum en það er fólk úr allavega áttum sem tengjast með einum eða öðrum hætti inn í sjávarútveginn og verða þ.a.l. á vegi manns.
En það erfiðasta?
Erfiðast fannst mér að fara á sjó, ég fór nokkra róðra með frænda mínum á einni af trillunni hans pabba fyrir nokkrum árum. Það var mjög lítið gagn í mér af því að ég byrjaði að æla á útstíminu og hætti ekki fyrr en við komum í land aftur – sjóveiki hlýtur að vera ein versta veiki sem til er.
Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?
Þegar framkvæmd var vinnustöðvun til þess að hlusta á ljóð eftir Sigríði Jónsdóttur frá Arnarholti.
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?
Þokki.
Hver eru áhugamál þín?
Líkamsrækt, hestamennska og allt sem tengist sveitinni og náttúrunni.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Uppáhaldshátíðarmaturinn minn eru rjúpur, annars er ég alltaf mjög hrifin af saltkjöti.
Hvert færir þú í draumfríið?
Ég myndi vilja fara til Galapagos