Vesturbyggð vill að tryggðir verði 48 dagar til strandveiða
Bæjarstjórn Vesturbyggðar segir í ályktun að það vilji að matvælaráðherra endurskoði skerðingu aflaheimilda til strandveiða og tryggi 48 daga til strandveiða ár hvert.
Bæjarstjórn telur því mikilvægt að þingmannafrumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða er varðar strandveiðar fái umfjöllun og þinglega meðferð hjá Alþingi. Flutningsmaður er Lilja Rafney Magnúsdóttir, varaþingmaður.
Frumvarpinu „er ætlað að tryggja strandveiðar í 48 veiðidaga frá og með árinu 2022 með auknum sveigjanleika í viðmiðunarafla til strandveiða. Er þessari aðgerð fyrst og fremst ætlað að efla sjávarbyggðir um land allt,“ segir i greinargerð sem fylgir frumvarpinu.
Lagt er til að þorskveiðiheimildir til veiða í strandveiðikerfinu verði auknar og aukningin tekin af heimildum í almenna byggðakvótakerfisins sem og skel- og rækjuuppbótum fiskveiðiársins 2022/2023.
Bæjarráð Vesturbyggðar hafði áður mótmælt skerðingu aflaheimilda til strandveiða á yfirstandandi fiskveiðiári um 1.500 tonn og segir í ályktun þess að strandveiðar hafi farið vaxandi innan Vesturbyggðar „og var Patrekshöfn aflahæsta strandveiðihöfn landsins á síðasta fiskveiðiári. Strandveiðar eru því mikilvægur burðarás í atvinnulífinu á sunnanverðum Vestfjörðum og hefur skerðingin víðtæk áhrif, á íbúa, verslanir og þjónustuaðila.“
Frétt af bb.is