Miklar sveiflur í aflaverðmæti

Deila:

Þrátt fyrir  tæplega 12% samdrátt í verðmæti landaðs afla á landinu öllu í júlímánuði síðastliðnum, jókst verðmæti landaðs afla í þremur landshlutum, nánast stóð í stað í einum en lækkaði umtalsvert í fjórum hlutum landsins.

Hlutfallslega jókst verðmæti landaðs afla mest á Vesturlandi eða um 76,1%. Verðmæti þar varð nú 177,8 milljónir króna, en var í sama mánuði í fyrra aðeins 101 milljón. Á Vestfjörðum jókst verðmæti fiskaflans um 30,6% og fór úr 445,8 milljónum í 582,2. Á Suðurnesjum varð aukningin 7% og fór verðmætið úr 1,1 milljarði í 1,2.

Mestur var samdrátturinn hlutfallslega á Norðurlandi vestra, 31,8%. Aflaverðmæti þar féll úr 766,4 milljónum í 523 milljónir. Á Suðurlandi dróst verðmætið saman um 21,9%, féll úr 1,2 milljörðum í 946,7 milljónir. Verðmæti afla á höfuðborgarsvæðinu féll um 20,1%, fór úr 3,1 milljarði í 2,5. Á Austurlandi dróst verðmætið saman um 0,9% og var nú ríflega milljarður króna.

Skýringar á þessum sveiflum má rekja til bæði breytinga í aflamagni og almennrar lækkunar á fiskverði.

Meðfylgjandi mynd er frá Grundarfirði. Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

Deila: