Sameiginlega æfing Dana og Íslendinga
Samhliða æfingu Atlantshafsbandalagsins, Trident Juncture 2018, ákvað Landhelgisgæslan og danski heraflinn að efna til sameiginlegrar leitar- og björgunaræfingar á Faxaflóa í vikunni. Áhöfnin á TF-LIF tók þátt í aðgerðum á hafi fyrir hönd Landhelgisgæslunnar en Hvítabjörninn, varðskip Dana, og eftirlitsflugvél danska flughersins tóku sömuleiðis þátt í æfingunni. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð hafði yfirstjórn með björgunaraðgerðum og sameiginleg björgunarmiðstöð Dana á Grænlandi tók einnig þátt samkvæmt frétt á heimasíðu Gæslunnar.
Æfingin hófst með því að brúðu var varpað í hafið og í kjölfarið var það hlutverk þyrlunnar, eftirlitsflugvélarinnar og varðskipsins að finna hana og staðsetja. Þegar brúðan fannst flaug eftirlitsflugvél danska flughersins að staðnum og varpaði björgunarbáti í sjóinn. Áhafnarmeðlimir Hvítabjarnarins fóru þá um borð í björgunarbátinn og biðu björgunar. Þyrla Landhelgisgæslunnar kom þá á vettvang og bjargaði mönnunum og brúðunni. Að því búnu var þeim sem bjargað var komið fyrir um borð í Hvítabirninum þar sem þeim var veitt aðstoð. Að æfingu lokinni var eldsneyti dælt á TF-LIF úr danska varðskipinu.
Æfingin í dag var allt í senn leitaræfing, samskiptaæfing og björgunaræfing þar sem reyndi á samvinnu Dana og Íslendinga við krefjandi aðstæður.
Landhelgisgæslan og danski sjóherinn hafa á síðustu árum átt náið samstarf á ýmsum sviðum, þar á meðal við þjálfun áhafna.
Nauðsynlegt er að halda leitar- og björgunaræfingar sem þessar, þegar tækifæri gefast, í þeim tilgangi að samhæfa viðbrögð við slysum og óhöppum á hafi úti. Æfingin í dag þótti heppnast ákaflega vel en allir aðilar drógu mikinn lærdóm af henni. Æfingin sýndi glögglega hve mikilvægt er fyrir Íslendinga og Dani að vinna saman á Norður Atlantshafi.
Í áhöfn TF-LIF voru þeir Sigurður Ásgeirsson, flugstjóri, Tryggi Steinn Helgason, flugmaður, Óskar Óskarsson, flugvirki og Jóhann Eyfeld, stýrimaður. Snorre Greil og varðstjórar stjórnstöðvar stýrðu aðgerðum fyrir hönd Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð.