Draga sig út úr viðræðum um sameiningu

Deila:

Stjórnir Sjómannafélagannafélags Eyjafjarðar og Sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum hafa dregið sig út úr viðræðum við þrjú önnur sjómannafélög um sameiningu félaganna. Þetta var samþykkt á stjórnarfundum beggja félaganna í gær og sendu þau frá sér sameiginlega yfirlýsingu undirritaða af Konráð Alfreðssyni, formanni Sjómannafélags Eyjafjarðar og Þorsteini Guðmundssyni,, formanni sjómannafélagsins Jötuns.

Um atburðarásina segir svo á heimasíðu Sjómannafélags Eyjafjarðar:
„Stjórn félagsins kom saman til fundar í gær og var eitt mál á dagskrá fundarins, þ.e. staðan í viðræðum þeirra fimm sjómannafélaga sem verið hafa í gangi um nokkurt skeið. Viðbrögð félagsmanna og áhyggjur okkar stjórnarmanna í Sjómannafélagi Eyjafjarðar um þær alvarlegu ásakanir sem settar hafa verið fram á hendur stjórnendum Sjómannafélags Íslands hefur sett okkur í þá stöðu að óhjákvæmilegt er annað en að bregðast við. Á stjórnarfundinum var samþykkt eftirfarandi yfirlýsing sem undirrituð er af formanni SE og formanni Jötuns um að ekki verði lengra farið í málinu og dragi því þessi félög sig út úr þessum viðræðum.“

Yfirlýsing frá Sjómannafélagi Eyjafjarðar og Sjómannafélaginu Jötni:

„Í fréttum undanfarna daga hafa komið fram mjög alvarlegar ásakanir á hendur stjórnendum Sjómannafélags Íslands um óheiðarlega framkomu og falsanir á fundargerðarbók sjómannafélagsins. Ásakanir þessar hafa komið fram í tengslum við fyrirhugað mótframboð til stjórnar félagsins í tengslum við aðalfund þess sem fram fer á milli jóla og nýárs. Þessar ásakanir telja stjórnendur ofangreindra félaga svo alvarlegar að við því verði að bregðast.

Þar sem ofangreind félög hafa verið í sameiningarviðræðum við Sjómannafélag Íslands, Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur og Sjómannafélag Hafnarfjarðar er það mat stjórnenda þessara félaga að ekki verði lengra farið og draga sig því út úr þessum sameiningarviðræðum félaganna.“

 

 

 

 

 

Deila: