Dýrt að draga búrfisk úr sjó

Deila:

Búrfiskur er sú fisktegund sem mestum verðmætum skilar, ef marka má veiðigjald á honum á þessu fiskveiðiári. Fyrir hvert kíló af veiddum búrfiski skal greiða 68,94 krónur í veiðigjald á þessu fiskveiðiári. Það er meira en þrefalt meira en gjaldið var á nýliðnu fiskveiðiári. Ólíklegt er þó að þessi mikla hækkun á veiðigjaldi á búrfiski skili sér í ríkiskassann, því nánast ekkert veiðist af þessum góðfiski hér við land.

Þetta má sjá í reglugerðum um veiðigjald fyrir síðasta fiskveiðiár og þetta ár, en gjaldið meira en tvöfaldaðist að meðaltali um kvótaáramótin fyrsta september. Það gerist þrátt fyrir að verð á fiski upp úr sjó hafi lækkað að meðaltali um kringum 20% og verð á afurðum hafi lækkað svipað í íslenskum krónum vegna sterkari krónu í ár en í fyrra. Þetta skýrist af því að veiðigjald á hverju fiskveiðiári miðast við afkomu veiða og vinnslu tveimur árum áður. Gjaldið er því ekki í neinum takti við afkomuna það ár, sem fiskurinn er veiddur og gjaldið innheimt.

Þegar litið er á einstakar fiskitegundir er veiðigjald á hvert kíló af þorski nú 22,98 krónur á hvert kíló, en var áður 11,09 krónur. Fyrir gráðlúðu skal nú greiða 50,79 krónur á hvert kíló en áður var gjaldið 26,75 krónur. Gjald fyrir humar er nú 17,69 krónur en var áður 11,30 krónur.

Athygli vekur að afkoma af veiðum og vinnslu á öfugkjöftu virðist hafa batnað umtalsvert. Að minnsta kosti ef marka má breytingarnar á veiðigjaldinu. Það hefur fjórfaldast milli fiskveiðiára, fer úr 3,94 krónum í 15,86 krónur!

Búrfiskur heitir á ensku Orange Roughy. Hann er ekki ólíkur karfa en veiðist mest við Nýja-Sjáland og Ástralíu. Hann veiddist hér við land í litlum mæli á síðust tveimur áratugum síðustu aldar, en hefur lítið orðið vart við hann síðan og engar beinar veiðar á honum stundaðar.

Deila: