Birta álagt veiðigjald mánaðarlega

Deila:

Fiskistofa hefur tekið saman upplýsingar um álagt veiðigjald fiskveiðiárið 2016/2017 sem lauk 31. ágúst sl.  Það nemur alls 5,7 milljörðum kr. samanborið við 8,7 milljarða á fiskveiðiárinu 2015/2016.  Frá  álögðu veiðigjaldi  dregst afsláttur  samkvæmt reglugerð og  lækkun á grundvelli bráðabirgðaákvæðis í lögum þannig að nettó álagt veiðigjald sl. fiskveiðiárs nam 4,6 milljörðum kr.

Fiskistofa birtir nú í fyrsta skipti álagt veiðigjald fyrsta mánaðar nýs fiskveiðiárs 2017/2018 og verður uppfærð staða álagningarinnar  framvegis aðgengileg á vefnum.  Í september var veiðigjald lagt á 364 aðila og heildarupphæðin nemur  tæpum 936 milljónum kr.

Áætlað er að veiðigjald á þessu fiskveiðiári verði um 11 milljarðar króna, eða ríflega tvöfalt hærra en nú. Veiðigjald fiskveiðiárið 2015/2016 var 6,9 milljarðar, fiskveiðiárið þar áður var gjaldið 7,7 milljarðar og þar áður 9,2 milljarðar. Hæst hefur veiðigjaldið verið 12,8 milljarðar fiskveiðiárið 2012/2013, en þá var sérstakt viðbótargjald lagt á veiðarnar.

Nánar má lesa um veiðigjöldin á eftirfarandi slóð inn á Fiskistofu: http://www.fiskistofa.is/umfiskistofu/frettir/veidigjald-fiskveidiarid-2016-2017

 

Deila: